Leita byssumanns sem skaut níu ára stúlku til bana

Olivia Pratt-Korbel var ekki nema níu ára gömul þegar hún …
Olivia Pratt-Korbel var ekki nema níu ára gömul þegar hún var skotin til bana á mánudagskvöldið. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við unnum okkur ekki hvíldar uns við finnum þig,“ sagði Mark Kameen, rannsóknarlögreglumaður í lögreglunni í Merseyside, og ávarpaði þar óþekktan byssumann sem skaut níu ára gamla stúlku, Oliviu Pratt-Korbel, til bana á heimili hennar í Liverpool á mánudagskvöld.

Móðir Oliviu opnaði útidyrnar er hún varð vör við einhverja hreyfingu fyrir utan. Kom hún þá auga á Joseph Nee, dæmdan fíkniefnasala og innbrotsþjóf, og mann sem elti hann með skotvopn á lofti.

Hljóp Nee rakleiðis að dyrunum og leitaði inngöngu og hinn á eftir, en móðirin reyndi hvað hún gat að halda þeim fyrir utan. Við átökin hlaut hún skotsár á úlnlið en Olivia varð fyrir byssuskoti er varð hennar bani.

Joseph Nee var á flótta undan byssumanninum.
Joseph Nee var á flótta undan byssumanninum. Ljósmynd/Lögreglan í Cheshire

„Lítill sólargeisli“

Nee varð einnig fyrir skoti og flutti akandi vegfarandi hann á sjúkrahús. Byssumaðurinn hefur hins vegar ekki fundist enn sem komið er og grunar lögreglu jafnvel að hann hafi náð að koma sér úr landi. Skilaboðin til hans frá Kameen standa þó óröskuð, lögreglan muni finna hann að lokum.

Minningarathöfn var haldin um Oliviu á þriðjudag þar sem kennari hennar, Rebecca Wilkinson, tók til máls og lýsti nemanda sínum sem „litlum sólargeisla“.

Breskir fjölmiðlar velta því nú fyrir sér hvort tíðni afbrota, þar sem skotvopnum er beitt, fari hækkandi en víg Oliviu var þriðja manndrápið með skotvopni á Liverpool-svæðinu í þessum mánuði. Þá hafa fjórir verið skotnir til bana í London upp á síðkastið, þrír í júlí og einn í ágúst.

Þessir atburðir verða í kjölfar tímabils er færði með sér væntingar almennings um að lögreglu færist vel úr hendi að halda skotvopnum frá götunum og afbrotamönnum. Nokkrir samverkandi þættir, svo sem heimsfaraldurinn, öflugt eftirlit lögreglu og gott gengi í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi, virtust þá fækka skotvopnaglæpum um allt Bretland.

BBC
BBCII (fjölgar skotvopnaglæpum á ný?)
Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka