Lögreglan sek um að dreifa myndum frá slysstað

Vanessa Bryant, ekkja Kobe Bryant, fær skaðabætur vegna myndbirtinga lögreglu.
Vanessa Bryant, ekkja Kobe Bryant, fær skaðabætur vegna myndbirtinga lögreglu. AFP

Los Angeles-sýsla hefur verið dæmd til greiða ekkju körfuboltamannsins Kobe Bryant skaðabætur vegna mynda sem lögreglumenn tóku og dreifðu, af slysstað þar sem Bryant lést.

Vanessu Bryant voru dæmdar 16 milljónir dala eða því sem samsvarar 2,3 milljörðum íslenskra króna í skaðabætur vegna tilfinningalegs tjóns sem hún varð fyrir þegar lögreglan í Los Angeles tók myndir á slysstað og dreifði.

Chris Chester einnig dæmdar skaðabætur

Bryant og dóttir hans létu lífið er þyrla hans hrapaði til jarðar í Calabasas í Kaliforníu í janúar árið 2020. Bryant er af mörgum talinn einn besti körfuboltamaður allra tíma.

Þá þarf sýslan einnig að greiða Chris Chester, sem missti dóttur sína og eiginkonu í slysinu, 15 milljónir dala eða því sem samsvarar 2,1 milljörðum króna í skaðabætur vegna myndanna.

Kviðdómendur komust að þessari niðurstöðu eftir að hafa rætt málið fram og til baka í 4 og hálfan tíma.

Ekkert rannsóknarlegt gildi

Krafðist Vanessa greiðslu skaðabóta nokkrum mánuðum eftir andlátið vegna þess til­finn­inga­lega tjóns sem hún hef­ur orðið fyr­ir í kjöl­far þess að lög­regluþjón­ar í LA tóku mynd­ir af slysvett­vangi og deildu með öðrum.

Fjöl­marg­ir lög­regluþjón­ar voru á slysstað sem sumir hverj­ir tóku mynd­ir á síma af „látn­um börn­um, for­eldr­um og þjálf­ur­um“, að því er segir í ákær­unni.

Mynda­tök­urn­ar höfðu ekk­ert rann­sókn­ar­legt gildi, að sögn lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka