Mætti ekki við eigin réttarhöld

Jerlan Omarchanov lætur ekki sjá sig við eigin réttarhöld en …
Jerlan Omarchanov lætur ekki sjá sig við eigin réttarhöld en heldur sig í Þýskalandi. Listinn yfir mistök hans við bæklunarskurðaðgerðir við Sørlandet-sjúkrahúsið er langur. Samsett mynd/Án höfundarmerkingar

Jerlan Omarchanov, skurðlæknirinn frá Kasakstan sem örkumlaði fjölda sjúklinga við Sørlandet-sjúkrahúsið í Flekkefjord í Noregi, mætti ekki við sín eigin réttarhöld en hann er ákærður fyrir stórfellt brot á lögum um heilbrigðisstarfsfólk.

Verjandi Omarchanovs, Carl Henning Leknesund, hefur aldrei heyrt í skjólstæðingi sínum sem nú mun staddur í Þýskalandi og svarar að sögn verjandans ekki símhringingum, SMS-skeytum, tölvupósti eða nokkrum sköpuðum hlut. Þá hefur verjandanum ekki tekist að ná sambandi við verjanda skurðlæknisins í Þýskalandi heldur.

Mál Omarchanovs voru töluvert í fréttum árið 2020 þegar æ fleiri sjúklingar hans stigu fram með varanleg örkuml eftir aðgerðir sem læknirinn hefði aldrei átt að fá að framkvæma einn síns liðs, enda hafði hann nýhafið nám í bæklunarskurðlækningum en var með próf í almennum skurðlækningum frá Rússlandi þar sem hann hafði starfað sem herlæknir. Íslenskur sjúklingur hans ræddi við mbl.is.

Alls er um tugi sjúklinga að ræða og þótti læknirinn lítt við alþýðuskap við störf sín, gekk meðal annars út af fundum og gekk enn fremur út úr miðri aðgerð árið 2018. Þá hafði litáískur skurðlæknir verið í heimsókn á sjúkrahúsinu og þeir Omarchanov framkvæmt aðgerð saman. Ræddu þeir eingöngu saman á rússnesku svo norskt hjúkrunarfólk sem aðstoðaði við aðgerðina var fullkomlega utangátta. Þegar fundið var að þessu fyrtist Omarchanov við og stormaði út úr aðgerðinni sem litáíski læknirinn lauk.

Nokkur dæmi um mál Omarchanovs:

2018: Kona skor­in upp á fæti án þess að skurðaðgerðar væri þörf. Var­an­legt lík­ams­tjón.

2018: Gervimjöðm sett í konu án þess að til­efni væri til. Fékk sletti­fót (e. foot drop, gait abn­ormality).

2018:  Sjúk­ling­ur lést eft­ir að lækn­ir fór ekki í út­kall.

2018: Maður fékk ranga aðgerð í kjöl­far flók­ins ökkla­brots. Taka þurfti fót­legg af.

2016: Skar upp sjúk­ling sem hann taldi að hefði botnristil­bólgu. Sprengdi krabba­mein­sæxli í maga sjúk­lings með þeim af­leiðing­um að krabba­meinið dreifði sér.

Er Omarchanov ákærður fyrir að veita ekki þá læknisþjónustu er honum bar og ráðfæra sig ekki við yfirlækni. Eftir fjölda mistaka á sjúkrahúsinu í Flekkefjord var hann fluttur til í starfi og hóf störf við sjúkrahúsið í Kristiansand sem einnig heyrir undir Sørlandet-sjúkrahúsið.

Þar var honum gert að undirrita skjal þar sem fram kom hvaða aðgerðir honum leyfðist að framkvæma. „Hann átti erfitt með að sætta sig við að vera aðstoðarlæknir og vildi gera hlutina upp á eigin spýtur,“ sagði Øystein Hjalmar Berg, deildarstjóri bæklunarskurðdeildar Kristiansand-sjúkrahússins, þegar hann vitnaði fyrir Héraðsdómi Kristiansand. Taldi hann sjúklingum hætta búin í Flekkefjord, þar hefði hreppapólitík leyst öryggi sjúklinga af hólmi.

NRK

TV2

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert