Kjarnorkuverið í Saporisjía í Úkraínu var í dag aftengt frá úkraínska rafveitukerfinu í fyrsta sinn síðan það var reist, fyrir um fjörutíu árum síðan.
Alþjóðakjarnorkumálastofnunin mun senda eftirlitsteymi að verinu innan fárra daga. Skemmdir hafa orðið á raflínum úkraínska rafveitukerfisins og því brýnt að tryggja öryggi versins.
Úkraínska kjarnorkumálastofnunin Energoatom segir í tilkynningu að tveir af sex kjarnaofnum sem enn eru í notkun séu ekki lengur tengdir við orkunetið, eftir að eldsvoði í nálægu kolaveri eyðilagði síðustu rafmagnslínuna sem tengdi verið við kapalinn. Hinum þremur línunum var grandað í stórskotahríð Rússa.
Sakar Energoatom Rússa um að hafa valdið aftengingunni. Segja forsvarsmenn stofnunarinnar að nú sé verið að reyna að tengja annan ofninn aftur við raforkunetið.
Verið sinnir um 20% af raforkuþörf Úkraínu en einnig þarf rafmagnstengingu til að kæla kjarnaofnana sem eru í notkun. Nokkrir rafalar sem ganga fyrir díselolíu eru við verið en spurningar hafa vaknað um áreiðanleika þeirra.
Úkraínskir embættismenn hafa áður sagt að Rússar hafi í hyggju að aftengja verið frá orkuneti landsins og beina orkunni sem verið framleiðir til Krímskaga. Energoatom getur þó ekki staðfest hvort það hefði verið gert.
Bandarísk yfirvöld hafa í kjölfar aftengingarinnar varað Rússa við því að beina orku versins til síns heimalands, í stað þess að hún fari til heimamanna í Úkraínu.
Rússneskir hermenn hernumdu kjarnorkuverið, sem er það stærsta í Evrópu, í byrjun innrásar sinnar sem hófst í febrúar síðastliðnum.
Bardagar milli hersveita Rússa og Úkraínumanna hafa verið tíðir umhverfis kjarnorkuverið.