Stálu dagbók dóttur Bidens

Ashley Biden, lengst til hægri, ásamt föður sínum og fleirum …
Ashley Biden, lengst til hægri, ásamt föður sínum og fleirum úr fjölskyldunni á Rehoboth Beach í Delaware í júní. AFP/Saul Loeb

Tvennt hefur játað sök fyrir rétti í New York í máli sem snerist um að falbjóða stolna dagbók og fleiri muni Ashley Biden, dóttur Bidens Bandaríkjaforseta, íhaldssama aðgerðasinnavefmiðlinum Project Veritas fyrir 40.000 Bandaríkjadali, jafnvirði rúmlega 5,6 milljóna króna.

Frá þessu greindu saksóknarar í dag auk þess sem skrifstofa Damians Williams saksóknara sagði fólkið hafa játað á sig þann ásetning að flytja þýfi milli ríkja Bandaríkjanna. Nafn Bidens kom hvergi við sögu í opinberum yfirlýsingum né um hvers kyns þýfi var að ræða, hvað þá hver meintur kaupandi var en hins vegar komst rannsókn málsins í hámæli fyrir mörgum mánuðum.

Vildu myndir af þýfinu

Ashley Biden geymdi dagbókina, ásamt skattskýrslum, stafrænni geymslueiningu með fjölskyldumyndum og fleiru, á heimili sínu á Delray Beach í Flórída haustið 2020 þar sem kvenkyns sakborningurinn bjó einnig á þeim tíma.

Þar mun konan hafa hnuplað mununum og sett sig í samband við hinn sakborninginn, karlmann sem svo hafði samband við Project Veritas, þaðan sem beiðni barst um myndir af varningnum. Greiddi miðillinn fólkinu svo fyrir að flytja þýfið til New York.

Starfsfólk Project Veritas hitti sakborninga þar, tók við þýfinu og sendi fólkið til baka til að fremja frekari þjófnað hjá Biden. Það gerðu þau og afhentu þá starfsmanni Project Veritas í Flórída varninginn sem flutti hann til New York.

Talsmenn Project Veritas kveðast hafa fengið dagbókina hjá ábendingafólki (e. tipsters) sem hafi sagt dagbókina hafa legið yfirgefna í herbergi. Kváðust þeir enn fremur hafa afhent löggæsluaðilum dagbókina án tafar og aldrei aðhafst neitt ólögmætt.

AP
New York Times
CNBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert