Finnar spari við sig sánuna

Eitt af því fyrsta sem kemur upp í huga margra …
Eitt af því fyrsta sem kemur upp í huga margra þegar minnst er á Finnland er ástríða finnskrar þjóðar fyrir sána. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jorge Royan

Það heitir „gráðunni lægra“, átakið sem Finnar hleypa af stokkunum 10. október og snýst um að spara kyndinguna eftir að Rússar skrúfuðu fyrir stærsta hluta gasstreymisins til Evrópuríkja sem mörg hver reiða sig á gasið sem orkugjafa.

Verður sánaþjóðinni miklu þá uppálagt að draga úr gufuböðum sínum eftir föngum, hafa sturtuferðirnar styttri og kynda eins lítið heima fyrir og þolanlegt telst með snarhækkandi orkuverði í kjölfar ákvörðunar Rússa.

Á leið í erfiðan vetur

Motiva er fyrirtæki í eigu finnska ríkisins sem veitir sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf um sjálfbærni í orkumálum og stendur fyrir átakinu í samstarfi við ríkið og yfirvöld orkumála. Kati Laakso, talskona Motiva, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að það sé von aðstandenda átaksins að Finnar séu reiðubúnir að sýna samstöðu í gashremmingunum.

„Við nefnum bara nokkur dæmi um orkusparnað og vonum að almenningur átti sig á því að við erum á leið inn í erfiðan vetur,“ segir Laakso, en auk þess sem áður er getið er mælst til þess að Finnar dragi úr notkun rafknúinna afþreyingartækja, hætti að kynda bílskúra sína og aki hægar til að spara eldsneyti.

„Fólk þarf kannski ekki að kveikja á sánunni daglega, kannski einu sinni í viku,“ segir Laakso enn fremur, en sánaþjóðin mikla, sem telur 5,5 milljónir, er talin nota alls um þrjár milljónir sánabaða.

Er þetta í fyrsta skipti síðan í olíukreppunni á áttunda áratugnum sem átak hefur verið gert í Finnlandi til að draga úr orkunotkun.

YLE

Helsinki Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert