Stjórnvöld í Nýja Sjálandi hafa staðfest hver börnin tvö voru sem fundust í ferðatöskum þar í landi fyrir skemmstu. Nöfn þeirra verða þó ekki birt að beiðni fjölskyldu þeirra, að sögn lögreglu þar í landi.
Nýsjálenska rannsóknarlögreglan fer með rannsókn málsins en tvær vikur eru síðan líkamsleifar barnanna fundust. Dánardómsstjóri í landinu hefur gefið út tilskipun þess efnis að engin vísbendi verði gerð opinber sem rekja mætti til fjölskyldu barnanna, að sögn rannsóknarlögreglumannsins Tofilau Faamanui Vaaelua.
Líkamsleifar barnanna fundust í ferðatöskunum eftir að grunlaus fjölskylda keypti muni, þar á meðal töskurnar, á uppboði nálægt Auckland í Nýja Sjálandi. Talið er að börnin hafi verið á aldrinum 5-10 ára gömul þegar þau létust.
Á mánudag greindi lögregla í Seúl í Suður-Kóreu frá því að þau hefðu fundið konu sem er talin skyld börnunum. Hún kom til Suður-Kóreu árið 2018 og hefur að öllum líkindum ekki farið úr landi síðan þá.
Nýsjálenska lögreglan hefur sagt erfitt að leysa úr máli sem þessu þar sem ljóst er að nokkur ár séu liðin. Sagði lögregla við fjölmiðla í síðustu viku að notast yrði við muni sem fengust með ferðatöskunum til þess að bera kennsl á börnin. Ljóst er að sú vinna hefur skilað árangri.