Kona og barn í sárum eftir skotárás á leikvelli

Skotárásin átti sér stað í íbúðahverfi í Svíþjóð.
Skotárásin átti sér stað í íbúðahverfi í Svíþjóð. mbl.is/​Hari

Kona og ungt barn særðust eftir skotárás á leikvelli í Eskilstuna í Årby, Svíþjóð í kvöld.

Lögregla var kölluð til klukkan sjö að kvöldi vegna skotárásarinnar þar sem kona og ungt barn höfðu særst. Sár barnsins eru ekki talin lífshættuleg en að öðru leyti liggja ekki fyrir nánari upplýsingar um líðan þeirra. Ljóst er þó að byssukúla hæfði konuna.

Johnny Gustavsson, hjá sænsku ríkislögreglunni, segir að nú sé unnið að því að hafa upp á vitnum og kalla til sérhæfðan mannskap. 

Grímuklæddur hópur og um 15 skot

Sænski ríkismiðillinn SVT ræddi við vitni að árásinni, sem lýsti því hvernig hún sá hóp  grímuklæddra einstaklinga safnast saman á svæðinu, sem hefðu tengst árásinni. Annað vitni segir að það hafi heyrt í 6 eða 7 skotum, svo hafi komið hlé, uns önnur eins skothrina fór af stað á ný. 

Ekki liggur fyrir hvort konan og barnið hafi verið skotmark árásarinnar. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins. 

Fyrir tæpri viku var lögreglu í Eskilstuna gert viðvart um tvær aðrar skotárásir. Lögreglan telur of snemmt að segja til um það hvort árásirnar tengist. 

„Í Eskilstuna hefur komið til átaka milli hópa sem kunna ekki að meta nærveru hvors annars. Það hefur verið blóðugt, svo vægt sé til orða tekið,“ er haft eftir Gustafson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert