Ók inn í hóp kaffihússgesta

Lögregla á vettvangi eftir að sendibifreiðinni var ekið inn í …
Lögregla á vettvangi eftir að sendibifreiðinni var ekið inn í hóp kaffihússgesta í hádeginu. AFP/Laurie Dieffembacq

Sex manns hlutu minni háttar kaun eftir að ökumaður sendibifreiðar ók inn á útisvæði kaffihúss í miðborg Brussel, höfuðborgar Belgíu, laust fyrir klukkan 13 að staðartíma og forðaði sér svo af vettvangi.

Segir lögregla að of snemmt sé að segja til um hvort ökumaðurinn hafi ekið inn á svæðið af ásetningi, bifreiðin sé hins vegar fundin og leit standi nú yfir að ökumanninum.

„Skömmu fyrir klukkan 13 ók sendibifreið inn á setusvæði utandyra við Saint Michel-götu. Ökumaðurinn lagði á flótta en viðbragðsaðilar voru fljótir á staðinn,“ segir talskona lögreglu við AFP-fréttastofuna.

Philippe Close borgarstjóri segir í samtali við dagblaðið Le Soir að við kaffihúsið hafi hvort tveggja ferðamenn og heimamenn í verslunarerindum setið er atvikið varð og sum vitnanna væru enn felmtri slegin. „Ljóst er að bifreiðinni var ekið á mjög miklum hraða,“ segir borgarstjóri.

NWS

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert