Öfga-hægri flokkurinn Svíþjóðardemókratar bættu við sig töluverðu fylgi í nýjustu skoðanakönnuninni í Svíþjóð en tvær vikur eru nú til stefnu fram að kosningum þar í landi.
Flokkurinn er nú með næst mest fylgi á eftir Sósíaldemókrötum sem hefur lengi verið stærsti flokkurinn í Svíþjóð. Svíþjóðardemókratar hlutu á milli 20 til 23 prósenta fylgi í þrem skoðanakönnunum sem voru birtar í þessari viku.
Niðurstöður kannananna sýna aukna andstöðu gegn innflytjendum og aukinn vilja til að herða aðgerðir gegn glæpum. Helstu baráttumál Svíþjóðardemókratar eru að berjast gegn glæpum og minnka komu innflytjenda.
Sósíaldemókratar, flokkur Magdalenu Andersson forsætisráðherra Svíþjóðar, hlaut 30 prósent fylgi í nýjustu könnunum. Moderaterna flokkurinn sem hefur vanalega verið í öðru sæti í kosningum situr nú í þriðja sæti í Svíþjóð miðað við kannanir og mælist með sextán til átján prósent fylgi.