Hluti þeirra lífvarða Haraldar Noregskonungs, sem vikið var úr lífverðinum vegna fíkniefnaneyslu fyrr í sumar og mbl.is fjallaði um á þriðjudaginn, segja nú að stjórnendur hafi knúið játningar þeirra fram og þeim hafi einfaldlega verið fórnað. Fíkniefnavandi lífvarðasveita konungs nái langt út fyrir hóp þeirra 30 sem vikið var úr lífverðinum.
Ræddi norska ríkisútvarpið NRK við nokkra lífvarðanna brottreknu sem sögðu farir sínar ósléttar. Kvað einn þeirra það jaðra við þversögn að menn gætu mætt grúttimbraðir á vakt og valsað þar um með skotvopn en mættu ekki reykja hass þegar þeir væru í fríi.
Segja lífverðirnir fyrrverandi að látið hafi verið í veðri vaka að refsing þeirra yrði mildari játuðu þeir fíkniefnaneyslu. Þá hafi þeim verið hótað því að neyslan yrði kærð til lögreglu ef lífsýni sem tekin voru af þeim, en aldrei greind, reyndust jákvæð og þeir játuðu ekki skýlaust. Eins hafi þeir ekki fengið að sjá nein skjöl um málið og ekki sínar eigin skriflegu játningar.
Að afloknu sumarfríi var öllum lífvörðum 1. lífvarðadeildar tilkynnt að handahófskenndar hárprufur yrðu teknar af þeim en greining hárs getur afhjúpað fíkniefnaneyslu allt að 90 daga aftur í tímann. Þá hafi verið settir saman nafnalistar yfir þá sem prófa skyldi í 1. deildinni. Við þetta hafi margir stigið fram og játað á sig neyslu.
„Margir sáu sína sæng upp reidda þarna og að þeir væru búnir að vera,“ segir einn fyrrverandi lífvarðanna við NRK. Sá er tvítugur og segist hafa reykt hass snemma í fríi sínu. Blaðamaður NRK spyr þá hvort það sé ekki firra að reykja hass þegar maður er í hernum sem líður enga fíkniefnaneyslu (n. nulltoleranse).
„Við erum sammála því. Við vorum bara fullir og klúðruðum hlutunum,“ svara þeir og bæta því við að ein hótunin til hafi snúist um að málið endaði á borgaralegu sakaskránni þeirra játuðu þeir ekki þegar. Hefur herinn þó skrifað um það á heimasíðu sinni, Forsvarets Forum, að fyrir tveimur árum hafi sú stefna verið tekin upp að fíkniefnamál er upp kæmu innan hersins skyldu ekki send áfram til borgaralegrar lögreglu.
Trond Robert Forbregd, yfirmaður lífvarðasveitanna, segir hins vegar við NRK að sér þyki það miður hafi einhverjir hinna hlutaðeigandi upplifað samskipti við yfirstjórnina sem óskýr og staðfestir að málin verði ekki send lögreglu.
Brage Steinson Wiik-Hansen, talsmaður hersins, bendir á að lífvarðasveit konungs sé stór, eitt þúsund manns, og því krefjandi að svara því hvað sagt hafi verið við hvern og einn á lægri stigum. „Hafi einhverjir þeirra sem hér eiga hlut að máli upplifað óskýr boðskipti þykir mér það leitt sem yfirmanni. Vafalaust eru aðstæður þrúgandi hvort tveggja fyrir þá og aðstandendur þeirra,“ segir Wiik-Hansen og vísar því enn fremur alfarið á bug að hárprófin hafi verið blekking til að knýja fram játningar.
NRK
NRKII (fær átta ábendingar um neyslu á dag)
NRKIII (skipaði undirmanni að ljúga að lögreglunni)
NRKIV (70 mál þar sem yfirmenn sluppu með skrekkinn)