Breivik reynir aftur að losna úr einangrun

Anders Behring Breivik myrti 77 manns árið 2011.
Anders Behring Breivik myrti 77 manns árið 2011. AFP

Norski hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Brei­vik ætlar að stefna norska ríkinu og krefjast þess að losna úr einangrun en hann hefur setið þar í áratug eftir að hann myrti 77 manns árið 2011. 

Aftenposten greinir frá þessu en Breivik telur að norska ríkið beiti hann ómannúðlegri meðferð og fremji á honum mannréttindabrot. 

Breivik, sem er nú 43 ára gamall, hefur ekki haft samskipti við neina aðra fanga frá því að hann var dæmdur í 21 árs „for­var­ing“ árið 2012. 

„For­var­ing“-úrræðið er ólíkt hefðbundn­um refsi­dómum þar sem hægt er að fram­lengja dóm­inn ótíma­bundið svo lengi sem dóm­ar­ar telji sam­fé­lag­inu stafa ógn af Brei­vik.

Þetta er í annað sinn sem hann stefnir norska ríkinu á grundvelli þess að ríkið hafi brotið gegn 3. og 8. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Þar segir að enginn skuli þola pyntingar, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu og að allir eigi rétt á friðhelgi einka- og fjölskyldulífs.

Var því máli hafnað en Fredrik Sejersted ríkislögmaður segir að nýja málssóknin verði afgreidd á hefðbundinn hátt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert