Fordæma loftárás á leikskóla

Kona á gangi skammt frá skriðdreka í suðurhluta Tigray-héraðs.
Kona á gangi skammt frá skriðdreka í suðurhluta Tigray-héraðs. AFP/Eduardo Soteras

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur fordæmt loftárás sem „var gerð á leikskóla“ í Tigray-héraði í Eþíópíu þar sem fjórir létust, þar á meðal tvö börn.

Loftárásin í Mekele, höfuðborg Tigray, var gerð nokkrum dögum eftir að bardagar brutust út við landamæri héraðsins í suðri á milli hersveita stjórnvalda og uppreisnarmanna. Þar með lauk fimm mánaða vopnahléi.

„UNICEF fordæma loftárásina harðlega sem var gerð á leikskóla og drap nokkur börn og særði fleiri,“ sagði Catherine Russel, framkvæmdastjóri UNICEF, á Twitter.

Uppreisnarsamtökin frá Tigray, TPLF, sem stjórna svæðum í norðri, sögðu að loftárásin hafi eyðilagt leikskóla og lent á íbúasvæði. Stjórnvöld í landinu hafa vísað þessu á bug. Þau segjast eingöngu beina sjónum sínum að hernaðarlegum svæðum og sökuðu TPLF um að sviðsetja dauðsföll almennra borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka