Aukin viðvera NATO á norðurslóðum

Jens Stoltenberg er hann heimsótti Kanada.
Jens Stoltenberg er hann heimsótti Kanada. AFP

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, leggur áherslu á aukið öryggi bandalagsins á norðurslóðum vegna ógnar af hálfu Rússa.

Í heimsókn sinni til Kanada sagði hann norðurslóðir vera mikilvægar þegar kemur að öryggi í Evrópu og á Atlantshafi. Hann sagði að með aðild Finna og Svía að NATO séu sjö af átta ríkjum norðurslóða orðin hluti af sambandinu.

„Stysta leiðin til Norður-Ameríku fyrir rússnesk flugskeyti og sprengjur yrði yfir norðurpólinn,“ varaði hann við. „Þetta þýðir að hlutverk NORAD (loftvarnarstofnun Norður-Ameríku) er nauðsynlegt fyrir Norður-Ameríku og þar af leiðandi fyrir NATO,“ sagði Stoltenberg, sem bætti við að NATO verði að auka viðveru sína á norðurslóðum.

Stoltenberg heilsar kanadískum hermanni.
Stoltenberg heilsar kanadískum hermanni. AFP

Möguleikar Rússa lengst í norðri eru „strategísk áskorun fyrir allt bandalagið“ bætti hann við og átti þar við aukin hernaðarumsvif Rússa á svæðinu. Í tengslum við þetta nefndi hann „hundruð hersvæða, bæði nýrra og frá tíma fyrrverandi Sovétríkjanna“ og nýtingu Rússa á norðurslóðum „sem tilraunasvæði fyrir háþróuð vopn á borð við hljóðfráar eldflaugar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert