Tvö bandarísk herskip sigldu í gegnum Taívansund í nótt, að sögn bandaríska sjóhersins. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt gerist síðan Kínverjar efndu til heræfinga í kringum eyjuna.
Í yfirlýsingu sagði bandaríski sjóherinn að sigling skipanna undirstriki áherslu Bandaríkjanna á frelsi og frið í þessum heimshluta.
Spenna í Taívansundi hefur aukist mjög í þessum mánuði eftir að Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, heimsótti borgina Taipei.
Kínverjar brugðust illa við og efndu til heræfinga umhverfis Taívan. Yfirvöld í Taipei fordæmdu æfingarnar og einnig eldflaugatilraunir vegna mögulegrar innrásar.
Tavain liggur undir stöðugri ógn um innrás Kínverja, sem segja að þessi lýðræðislega eyja undir eigin stjórn sé hluti af kínversku svæði sem verður hernumið og það með valdi ef nauðsyn krefur.
Bandarísk stjórnvöld viðurkenna völd Kínverja yfir Taipei á diplómatískan hátt en halda samt áfram samskiptum við Taívan og styðja eyjuna þegar kemur að rétti hennar til að ákveða framtíð sína.