Yfir eitt þúsund manns hafa látist á þessu ári af völdum flóða í Pakistan, þar af 119 síðasta sólarhringinn.
Pakistönsk yfirvöld greina frá þessu.
Bandaríkin, Bretland, Sameinuðu arabísku furstadæmin og fleiri lönd hafa veitt fjárstuðning vegna flóðanna en betur má ef duga skal, að sögn embættismanna. Bæta þeir við að ríkisstjórn Pakistans reynir allt sem í hennar valdi stendur til að veita aðstoð, að sögn BBC.
Áin Indus rennur í gegnum næstfjölmennasta svæði landsins og hafa margar þverár hennar flætt yfir bakka sína bæði vegna mikilla monsoon-rigninga og jöklabráðnunar.
Yfirvöld vara við miklu vatni í héraðinu Sindh á næstu dögum. Þar með aukist vandi milljóna manna sem þegar hafi þurft að glíma við afleiðingar flóða, segir AFP-fréttastofan.
Að sögn yfirvalda hafa flóðin í ár haft áhrif á yfir 33 milljónir manna, eða einn af hverjum sjö Pakistönum. Milljónir heimila hafa eyðilagst eða skemmst illa.
Flóðin í ár eru sögð álíka mikil og árið 2010, sem voru þau verstu í sögunni. Þá létust yfir tvö þúsund manns og næstum einn fimmti hluti landsins lenti undir vatni.