Eins og að vera stunginn með rakvélablöðum

Læknir skoðar hér sjúkling í einangrun vegna apabólu.
Læknir skoðar hér sjúkling í einangrun vegna apabólu. AFP/Ernesto Benavides

Apabólu-veiran veldur þeim sem fá hana ekki bara líkamlegum sársauka heldur geta örin sem hún skilur eftir á sálinni verið jafn yfirþyrmandi, að sögn fólks sem hefur fengið apabóluna og þeirra sem sinna meðferð við henni. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Þú kemst ekki óskaddaður frá sjúkdómi sem hefur valdið þér svona miklum sársauka og jafnframt brennimerkingu,“ segir Corentin Hennebert, einn þeirra fyrstu til að greinast með sjúkdóminn í Frakklandi, í samtali við AFP.

Frá því í maí síðastliðnum hefur apabólan breiðst um heiminn, en karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum eru í meirihluta þeirra sem hafa smitast. Það hefur vakið upp ótta um að brennimerking, líkt og átti sér stað í HIV-faraldrinum, endurtaki sig.

Mikill sársauki og sálrænn skaði

Nathan Peiffer-Smadja, sérfræðingur í smitsjúkdómum hjá Bichat-Claud Bernard spítalanum í París, hefur tekið þátt í rannsóknum og meðferð sjúklinga með apabóluna. Hann segir ástæður sálrænna eftirkasta sjúkdómsins mega rekja til nokkurra þátta.

Í fyrsta lagi geti apabólan sem slík verið mjög sársaukafull, en sársaukann má helst rekja til sára sem birtast á kynfærum, endaþarmi og í andliti. Margir óttast einnig að sárin skilji eftir sig varanleg ör sem verði mikil lýti.

Þá það valdið sálrænum skaða að smitast skyndilega af sjúkdómi sem enginn þekkir, sérstaklega eftir tveggja ára Covid-faraldur. Þriggja vikna einangrun vegna apabólu geti jafnvel kallað fram slæmar minningar frá útgöngubanni.

Hluti þeirra sem smitast getur líka þróað með sér innvortis sár, þá helst í endaþarmi, sem geta valdið miklum sársauka.

Ljót sár geta myndast á líkamanum.
Ljót sár geta myndast á líkamanum. AFP/Ernesto Benavides

Missti sjö kíló á þremur dögum 

Hennebert var einn þeirra sem lenti í því. „Mér fannst eins og það væri stanslaust verið að stinga rakvélablöðum inn í mig. Mér dettur ekkert annað í hug til að líkja þessu við, sársaukinn var svo mikill,“ segir hinn 27 ára gamli Hennebert.

Áður en hann fékk mjög sterk verkjalyf missti hann rúm sjö kíló á þremur dögum því hann gat ekkert borðað. „Ég gat ekki hugsað um neitt annað en sársaukann,“ segir hann.

„Ég veit að ég er ekki sá eini, fólk hefur haft samband við mig og sagt að það hafi grátið allan tímann.“

Eftir að Hennebert jafnaði sig gerðist hann talsmaður fólks sem fengið hefur apabóluna og krefst aðgerða gegn veirunni.

Sebastian Tuller, 32 ára baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks, segist hafa upplifað mikinn kvíða þegar sárin fóru að birtast á andliti hans. „Þetta var mjög ljótt og ég vissi ekki hvað ég átti að gera.“

Fleiri hafa sagt að um leið og sárin hafi farið að verða sýnileg, hafi þeir óttast að verða brennimerktir.

Bólusett gegn apabólu.
Bólusett gegn apabólu. AFP/Pascal Guyot

Þora ekki að stunda kynlíf

Apabólufaraldurinn hafi vakið upp erfiðar tilfinningar sem margir upplifðu í tengslum við HIV-faraldurinn, þrátt fyrir að sjúkdómurinn sé langt frá því að vera eins banvænn.

Tuller segist hafa fengið neikvæðar og móðgandi athugsemdir og upplifað fyrirlitningu fólks þegar hann greindi frá því að hann hefði fengið apabóluna. Margir hafi forðast að segja frá smiti af ótta við neikvæð viðbrögð.

Ungt fólk sem ekki enn hafi komið út úr skápnum sé í sérstaklega erfiðri stöðu. Það óttist að þurfa að greina vinnuveitanda frá kynhneigð sinni ef það þarf að fara í einangrun. Margir samkynhneigðir karlmenn hafi jafnvel ekki þorað að stunda kynlíf mánuðum saman af ótta við apabóluna. Það geti líka haft neikvæð áhrif á andlega heilsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka