Fimmtíu þúsund verði heimilislaus á næsta ári

Alls hafa 83.900 úkraínskir flóttamenn komið til Bretlands í tengslum …
Alls hafa 83.900 úkraínskir flóttamenn komið til Bretlands í tengslum við verkefnið Heimili fyrir Úkraínu. AFP/Sakis Mitrolidis

Um 50 þúsund úkraínskir flóttamenn í Bretlandi gætu orðið heimilislausir á næsta ári, vegna yfirvofandi kreppu í landinu. Ráðherrar í ríkisstjórn Bretlands hafa neitað að koma til móts við stuðningsaðila með því að bjóða upp á nýjan „stuðningspakka“.

Útlit er fyrir að verkefni ríkisstjórnarinnar, Heimili fyrir Úkraínu (e. Homes for Ukraine), muni leysast upp í næsta mánuði þegar sex mánaða dvöl flóttafólks hjá stuðningsaðilum lýkur, án þess að önnur gistirými komi í staðinn, að því er Guardian greinir frá.

Alls hafa 83.900 úkraínskir flóttamenn komið til landsins í tengslum við verkefnið síðan í mars og verið komið fyrir hjá stuðningsaðilum.

Heimilislausum muni fjölga verulega

Um er að ræða sex mánaða dvöl sem er í þann mund að renna út og skortur er á nýjum stuðningsaðilum. Þeir fá 350 pund á mánuði fyrir að taka þátt í verkefninu, sem jafngildir tæplega 60 þúsund krónum.

Gögn stjórnvalda sýna að 1.335 úkraínskir flóttamenn í Bretlandi eru skráðir heimilislausir. Þessi tala mun aftur á móti hækka verulega frá og með næsta mánuði og er gert ráð fyrir að á bilinu 15 til 21 þúsund Úkraínumenn verði heimilislausir í vetur. Þá verði þeir orðnir fleiri en 50 þúsund um mitt næsta ár.

Hefur ríkisstjórnin beðið núverandi stuðningsaðila um að leyfa flóttafólkinu að vera lengur hjá sér en í sex mánuði á sama tíma og auglýst er eftir nýjum aðilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert