Friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna á Kýpur rannsakar nú ásakanir um að breskir friðargæsluliðar hafi eyðilagt tvo sæketti (e. jet ski) í síðustu viku.
Bretarnir höfðu leigt tækin frá vatnaíþróttamiðstöð, sem þeir klesstu tvisvar með þeim afleiðingum að þau sukku.
Samkvæmt tyrkneskum miðlum hljóðar áætlað tjón og tekjutap upp á 13.000 dollara, eða tæpar tvær milljónir íslenskra króna.
Talsmaður friðargæsluliðsins segir að þau séu meðvituð um ásakanirnar og rannsaki nú atvikið. Allir friðargæsluliðar verði að uppfylla ströngustu hegðunarkröfur og beri ábyrgð á hegðun sinni.
Friðargæsluliðið á Kýpur var stofnað árið 1964 og er eitt elsta friðargæsluverkefni Sameinuðu þjóðanna. Starfa þar nú um 800 friðargæsluliðar.