„Frumbygginn í holunni“ látinn

Maðurinn hafðist við í algjörri einangrun síðastliðin 26 ár.
Maðurinn hafðist við í algjörri einangrun síðastliðin 26 ár.

„Frumbygginn í holunni“ sem var sá síðasti úr einangruðum ættbálki, sem hafðist við í Amazon-skóginum, er nú látinn. Maðurinn hafðist við í skóginum í algjörri einangrun síðastliðin 26 ár, en nafn hans var ekki vitað. BBC greinir frá.

Hann fannst látinn í hengirúmi fyrir utan skrákofann sinn þann 23. ágúst síðastliðinn en enginn merki voru um átök. Brasilísk yfirvöld greindu frá þessu. Maðurinn er talinn hafa verið um sextugt og látist af náttúrulegum orsökum.

Hann fékk viðurnefnið „frumbygginn í holunni“ vegna þess að hann gróf djúpar holur sem hann virtist nota bæði sem gildrur fyrir dýr og til að fela sig í.

Maðurinn var sá eini eftirlifandi í ættbálki frumbyggja sem hafðist við á Tanaru-frumbyggjasvæðinu í Rondonia, nálægt landamærum Bólivíu. Sex aðrir úr ættbálknum voru drepnir árið 1995, en meirihluti hans var þurrkaður út snemma á áttunda áratug síðustu aldar af bændum sem vildu stækka landsvæði sitt. Var fólkið þá annað hvort drepið eða hrakið á brott.

Yfirvöld fylgdust með manninum 

Engin merki eru um að einhver hafi ásælst það svæði sem hann hafðist við á síðustu ár og ekkert virðist hafa verið tekið úr híbýlum hans, að sögn lögreglunnar. Andlát hans verður engu að síður rannsakað frekar.

Samkvæmt brasilískum lögum eiga frumbyggjar rétt á búa á sínum landsvæðum, en þeir sem ásælast svæðin hika hins vegar ekki við að drepa þá.

Brasilísk yfirvöld hafa fylgst með manninum frá árinu 1996 í þeim tilgangi að reyna að tryggja öryggi hans og árið 2018 náðist af honum upptaka sem fór í dreifingu. Sást hann þá höggva tré með einhverju sem líktist exi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert