Yfirvöld í Ghana rannsaka nú atvik þar sem ljón í dýragarði í borginni Accra urðu karlmanni að bana, en hann hafði klifrað inn á afgirt svæði ljónanna. BBC greinir frá.
Maðurinn, sem sagður er á miðjum aldri, lést af sárum sínum eftir að ljónin réðust á hann. Lík hans var sótt inn á svæðið og hann fluttur í líkhús. Atvikið átti sér stað á sunnudaginn.
Ekki er vitað hvað manninum gekk til með að fara inn á afgirta svæðið, að fram kemur í yfirlýsingu frá yfirvöldum vegna málsins. Lögreglan hefur hafið rannsókn til að reyna að varpa ljósi á það sem gerðist; hvers vegna maðurinn fór inn á svæðið og hvernig aðstæður voru.
Ljón, ljónynja og tveir ljónsungar voru inni á afgirta svæðinu.