Múgur krafðist þess að fá að refsa albínóabarnaræningjum

Frá mótmælum í Mafagaskar.
Frá mótmælum í Mafagaskar. AFP

Lögreglan í Madagaskar hefur skotið fjórtán manns til bana hið minnsta og sært 28 til viðbótar í tilraun sinni til að ráða niðurlögum mótmæla sem brutust út í kjölfar mannráns á albínóabarni. 

Skotið var á hóp fólks í morgun, í suðausturhluta eyjunnar í bænum Ikongo, um nítíu kílómetrum frá Antananarívó, höfuðborg landsins. 

Níu létust samstundis en fimm til viðbótar á sjúkrahúsi. Níu þeirra særðu eru þungt haldnir. 

Fréttastofa AFP hefur eftir Razafintsiandraofa, kjörnum fulltrúa í borginni, að reiður múgur hafi komið saman fyrir utan lögreglustöðina til þess að krefjast þess að fjórir menn, sem grunaðir eru um að hafa rænt albínóabarni daginn áður, yrðu látnir lausir svo að múgurinn gæti tekið refsingu þeirra í eigin hendur. 

Mótmælendur voru um fimm hundruð að sögn Razafintsiandraofa, voru vopnaðir hnífum og sveðjum, og ætluðu sér að brjótast inn á lögreglustöðina. 

Ekki tókst að semja við mótmælendurna né dugði að beita táragasi. „Þeir héldu áfram að reyna að brjótast inn og við gátum ekkert gert nema að reyna að verjast,“ er haft eftir ónefndum lögregluþjóni í bænum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert