Rússar verði að flýja vilji þeir lifa af

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu. AFP/Dímítar Dilkoff

Úkraínski herinn kveðst hafa náð að brjóta sig í gegnum fremstu varnarlínu rússneska hersins í Kerson-héraðinu sem er hernumið af Rússum. Talið er að gagnárásin sé ein sú umfangsmesta frá því að stríðið hófst. Úkraínumenn hafa í margar vikur unnið að því að loka á helstu birgðaleiðir Rússa til Kerson.

Þá heldur rússneski herinn því sömuleiðis fram að sá úkraínski hafi fengið á sig stórt högg í misheppnaðri árásartilraun.

Í ávarpi til úkraínsku þjóðarinnar í gær sagði Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu: „Ef þeir vilja komast lífs af, er tími til kominn fyrir rússnesku hermennina að flýja. Farið heim.“

BBC greinir frá. 

Samkvæmt greiningu Huga Bachega fréttamanns á vegum BBC í Kænugarði, gæti gagnárásin verið upphafið að endurheimt Kerson-héraðsins. 

Segja hersveit Rússa hafa hörfað

Frá upphafi stríðsins í febrúar hefur Rússum tekist að sölsa undir sig stór svæði í Kerson-héraðinu.

Í morgun tilkynnti Kakóvka, úkraínskur aðgerðarhópur í suðurhluta landsins, að ein hersveit sem nýtur stuðnings Rússlands, hefði hörfað frá stöðu sinni í héraðinu. 

Oleksí Arestóvítsj, ráðgjafi Selenskís, sagði síðar í dag að úkraínski herinn hafði brotist í gegnum fremstu varnarlínu Rússa á nokkrum stöðum í héraðinu.

Mynd tekin 11. júlí af borginni Nóva Kakóvka í Kerson. …
Mynd tekin 11. júlí af borginni Nóva Kakóvka í Kerson. Borgin hefur verið á valdi rússneskra hermanna. AFP

Þá greindu nokkrir sjónarvottar frá því að þeir hefðu heyrt sprengingar í borginni Kerson og Nóva Kakóvka. 

Samkvæmt fréttaflutningi rússneska ríkismiðilsins Ría Novóstí, var ekkert rafmagn eða vatn í nótt í borginni Nóva Kakóvka.

Segja árásir Úkraínumanna misheppnaðar

Selenskí forseti og aðrir háttsettir úkraínskir embættismenn hafa gefið lítið upp í tengslum við gagnárásir Úkraínumanna. Hafa þeir beðið úkraínsku þjóðina um að vera þolinmóða.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur sagt að Úkraínumenn hafi reynt árásir í Kerson og nágranna héröðum. Segja þeir árásirnar misheppnaðar og að úkraínski herinn hafi orðið fyrir miklu tjóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka