„Við getum ekki einu sinni eldað okkur mat“

Íbúar í þorpum í Pakistan hafa margir flúið til borgarinnar …
Íbúar í þorpum í Pakistan hafa margir flúið til borgarinnar Sukkur í von um að fá aðstoð. AFP/Abdul Majeed

Heimili í þorpinu Panjal Sheikh í suðurhluta Pakistan hafa hrunið eitt af öðru og er ekkert eftir nema skemmdir veggir. Eignir fólks eru á víð og dreif í flóðunum.

Ghulam Rasool, áttræður þorpshöfðingi í Panjal Sheikh, lýsti hörmungunum sem átakanlegum. „Allt er eyðilagt. Við getum ekki einu sinni eldað okkur mat.“

Íbúar í þorpinu eru á meðal þeirra tugi milljóna sem hafa orðið fyrir barðinu af verstu monsúnflóðum í landinu í áratug. Nærri milljón heimili hafa eyðilagst og hafa fleiri en þúsund manns látist síðan í júní.

Heimili Rasool í Panjal Sheikh er eyðilagt.
Heimili Rasool í Panjal Sheikh er eyðilagt. AFP/Asif Hassan

Hljóp út með nýfætt barn þegar veggirnir hrundu

„Það heyrðist skyndilega hátt hljóð og við gátum ekki áttað okkur á hvað hefði gerst,“ sagði Rasool.

Hann grunaði að heimili sonar síns á landi fjölskyldunnar hefði hrunið. „Við héldum að öll fjögur hefðu dáið,“ sagði hann og átti við son sinn, tengdadóttur og tvö börn þeirra.

Ófrísk dóttir Rasool var þá að fæða barn sitt. Eftir fæðinguna var húsið við það að hrynja. „Ég hljóp út með dóttur mína í fanginu og veggirnir hrundu um leið og við komumst út,“ sagði dóttir Rasool.

Ghulam Rasool er þorpshöfðingi í Panjal Sheikh.
Ghulam Rasool er þorpshöfðingi í Panjal Sheikh. AFP/Asif Hassan

Rasool sagðist hafa ýtt niður öðrum veggjum sem eftir stóðu til að koma í veg fyrir að þeir lendi á vegfarendum.

Íbúar í fleiri þorpum hafa margir flúið til borgarinnar Sukkur í von um að fá aðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert