Fóturinn rifnaði af við hné

Ruslan Serbov við herþjónustu. Hann starfaði hjá öryggisfyrirtæki í Kænugarði …
Ruslan Serbov við herþjónustu. Hann starfaði hjá öryggisfyrirtæki í Kænugarði þegar Rússar réðust inn í landið í febrúar og hvarf þegar til herþjónustu til varna landsins enda með feril í sjóhernum. Í orrustunni um Maríupol í maí varð hann fyrir flugskeyti sem reif vinstri fót hans af við hné. Serbov er nú kominn með gervifót frá Össuri og kveðst hafa himin höndum tekið. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég var í Kænugarði þegar innrásin var gerð í febrúar, starfaði þar hjá öryggisfyrirtæki,“ segir Ruslan Serbov í samtali við mbl.is, úkraínskur hermaður sem missti fótinn í bardaga í borginni Maríupol í Úkraínu í maí en kom til Óslóar í síðustu viku þar sem hann fékk gervifót frá Össuri hf. og ræddi við sama tækifæri við mbl.is með aðstoð túlks sem túlkaði mál hans yfir á norsku.

Serbov hafði áður gegnt herþjónustu, var í sjóhernum, og bauð hann sig þegar fram til að taka þátt í vörnum landsins. „Ég var í hópi sem var sendur áleiðis til Maríupol þar sem harðir bardagar geisuðu. Við vorum í fjórum þyrlum og ein þeirra var skotin niður á leiðinni,“ segist Serbov frá.

Þeir hafi svo komið til Maríupol 5. apríl þar sem Rússar og Úkraínumenn börðust af mikilli hörku enda var Rússum það kappsmál að ná borginni sem þeir svo fullyrtu 21. maí að þeir hefðu gert. „Ég varð fyrir flugskeyti sem hannað var til að granda skriðdrekum, það straukst við vinstri fótinn á mér sem nægði til að rífa hann af við hné,“ segir Serbov.

Rússar settu afarkosti

Næstu vikurnar hafi verið honum hreint helvíti. „Þarna vorum við að fara halloka við varnir borgarinnar og fjöldi hermanna fallinn í valinn að ótöldum öllum sem voru særðir,“ rifjar Serbov upp. „Rússar settu okkur afarkosti, við gæfumst upp og þá fengi mannskapur frá Rauða krossinum að annast hina særðu,“ segir hann.

Serbov í Ósló í síðustu viku, kominn með gervifót og …
Serbov í Ósló í síðustu viku, kominn með gervifót og á leið í frí sem einkennast mun af upphafi langrar og strangrar endurhæfingar. Hann upplifði hreint helvíti í fangabúðum Rússa í maí og júní, verkja- og sýklalyfjalaus, nýbúinn að missa fótinn við hné. Ljósmynd/Aðsend

Rauði krossinn kom til aðhlynningar en í kjölfarið tóku Rússar fjölda úkraínskra hermanna til fanga, þar á meðal marga særða sem fengu enga aðhlynningu eftir það. Í þeim hópi var Serbov. „Svo stóð til að hafa fangaskipti, það átti að gerast eftir þrjá daga. Við vorum í fangabúðum Rússa við ömurlegar aðstæður, ég fékk hvorki verkjalyf né sýklalyf, aldrei var skipt um umbúðir og sárið var hreinlega byrjað að rotna,“ rifjar Serbov upp af dvölinni í fangabúðunum.

Fangaskiptin drógust þó á langinn. Vikurnar liðu, ein af annarri, og þær liðu hægt að sögn Serbovs. Það var ekki fyrr en 29. júní að af því varð að Rússar og Úkraínumenn skiptust á stríðsföngum. „Þá komst ég loks á sjúkrahús í Kænugarði og gekkst undir þrjár aðgerðir. Þá var ég búinn að missa 15 kíló í fangabúðunum og vissi hvorki í þennan heim né annan,“ segir Serbov sem lítur ágætlega út í myndsímtali á Messenger með túlkinn sér við hlið, greinilega búinn að ná sér vel yfir sumarið.

Stíf endurhæfing fram undan

Alls gekkst Serbov þó undir fimm aðgerðir, tvær þeirra fóru fram á vegum Rauða krossins í Maríupol áður en hann var tekinn til fanga. Nú er hann kominn með fót frá Össuri og þótt hann styðjist enn við hækjur er tilveran öll að komast á réttan kjöl. Hægt og bítandi.

„Ég er hermaður svo nú á ég inni frí eftir það sem ég lenti í en mín bíður auðvitað stíf endurhæfing næstu mánuðina,“ segir Serbov sem var rétt ófarinn til baka til Kænugarðs þegar hann ræddi við mbl.is.

Þegar kærasta Serbovs, Ljuba, kom að heimsækja hann til Óslóar …
Þegar kærasta Serbovs, Ljuba, kom að heimsækja hann til Óslóar taldi hann rétta tímann kominn, nýheimtur úr helju orrustunnar um Maríupol, og bar óvænt upp bónorðið við mikinn fögnuð starfsmanna Össurar og annarra viðstaddra. Svarið var vitanlega já. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig upplifði hann þá samskiptin við starfsfólk Össurar í Ósló og hvernig líður honum að vera kominn með nýjan vinstri fót?

Á meðan túlkurinn endurtekur spurninguna á úkraínsku fyrir Serbov færist breitt bros yfir andlit hans. „Þetta hefur verið alveg einstakt, þetta fólk er fagfólk fram í fingurgóma og útkoman núna þegar ég er kominn með fótinn er langt umfram allar mínar væntingar. Þakklæti er mér efst í huga núna, ég hefði aldrei trúað því að þetta gengi svona vel,“ segir Ruslan Serbov að lokum frá Ósló um leið og blaðamaður óskar honum alls hins besta. „Ochin priyatna,“ kveðjumst við, ánægjulegt að kynnast þér.

Fengu að þjálfa einn stoðtækjafræðing

„Mig hafði lengi langað til að hjálpa til á þessu svæði, ég bý ekki nema í eins og hálfs tíma flugfjarlægð frá Úkraínu,“ segir Anton Jóhannesson, stoðtækjafræðingur hjá Össuri, næsti viðmælandi mbl.is, sem einnig er staddur í Ósló en búsettur á Skáni í Svíþjóð til áratuga.

„Ég á góðan vin sem hefur verið í hjálparstarfsemi í Úkraínu síðan 2014 þegar fyrra stríðið hófst. Svo kom þessi möguleiki upp að þjálfa fólk í Úkraínu í þessari tækni sem mér fannst passa mjög vel miðað við aðstæður,“ heldur Anton áfram en úkraínskir stoðtækjafræðingar gangast nú undir þjálfun við að útbúa gervifætur á hermenn og borgara sem misst hafa útlimi í þeirri skálmöld sem nú geisar. Starfsfólk Össurar fékk þó aðeins einn nemanda í fyrstu.

Hluti teymisins í Ósló, Serbov fyrir miðju. Frá vinstri: Stoðtækjafræðingarnir …
Hluti teymisins í Ósló, Serbov fyrir miðju. Frá vinstri: Stoðtækjafræðingarnir Oleksandr Stetsenko, Yurii Yaskiv, Denys Nahornyi, Kavita Kerai og Anton Jóhannesson. Ljósmynd/Aðsend

„Okkur var heimilað að þjálfa upp einn stoðtækjafræðing, það var kvenmaður því engir karlmenn undir sextugu fengu að fara frá Úkraínu,“ segir Anton frá, „þessi kona kom til Amsterdam í byrjun júní og við vorum með kennslu fyrir hana. Hún fór svo til baka og við sendum henni vörur þótt ekki sé auðvelt að senda vörur til Úkraínu,“ heldur hann áfram.

Notast við gervifætur áratugum saman

Össur hafi þó komist í samband við aðila sem gat verið innan handar við að koma búnaðinum inn í landið og kveður Anton það hafa verið hreinan vendipunkt í aðgerðum Össurar. „Núna erum við komin með þrjá stoðtækjafræðinga í viðbót sem hafa hlotið þjálfun okkar sem gerir það að verkum að við getum verið á fjórum stöðum í Úkraínu og þau geta þjálfað fleira fólk þar.“

Anton segir úkraínsku stoðtækjafræðingana sem hann hefur komist í kynni við einstaklega duglegt fólk sem búi yfir reynslu auk þess sem auðvelt sé að miðla þekkingunni til þeirra. „Þeir taka til sín allar þessar hugmyndir sem við erum að kynna þeim og nú smíðum við bara á þeim afköstum sem okkur eru kleif auk þess sem vonir standa til þess að úkraínska ríkið hlaupi undir bagga og greiði fyrir eitthvað af þjónustunni í framtíðinni en hingað til hefur Össur gefið allar vörur og vinnu sérfræðinga,“ segir stoðtækjafræðingurinn af verkefninu.

Fórnarlömb innrásarstríðs Rússa megi búast við að notast við gervifætur áratugum saman. „Þetta er ungt fólk, milli 20 og 35 til 40 ára gamalt, og þarf á góðum gervifótum að halda. Það vill fara beint í vinnu og geta séð um sjálft sig aftur. Þarna er fólk sem mun þurfa að nota gervifætur í kannski 40 til 50 ár,“ segir Anton.

Stetsenko stillir hér hulsuna á stúfinn samkvæmt ráðleggingum Antons.
Stetsenko stillir hér hulsuna á stúfinn samkvæmt ráðleggingum Antons. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir verkefnið snúast um meira en að senda stoðtæki til Úkraínu. Þjónusta við notendur stoðtækjanna, kennsla til handa úkraínskum stoðtækjafræðingum og heilbrigðisstarfsfólki og eftirfylgni séu enn fremur veigamiklir þættir. „Ég á eftir eina kennslulotu núna og þá er þetta komið hjá mér, alla vega í bili,“ segir Anton Jóhannesson stoðtækjafræðingur, staddur í Ósló.

Gæði gervilima allt önnur nú

„Nýjasta tæknin í gervifótum er spennandi og býður upp á ótrúlega mikla möguleika,“ segir Oleksandr Stetsenko, verkfræðingur, stoðtækjafræðingur og yfirmaður Stoðtækjamiðstöðvarinnar í Kænugarði, lokaviðmælandi mbl.is um samstarf Össurar við úkraínska stoðtækjafræðinga.

Stetsenko veit væntanlega hvað hann syngur eftir rúmlega 30 ár í stoðtækjageiranum. Hann segir gæði gervilima allt önnur nú en þegar hann hafði nýlokið námi um það leyti sem Sovétríkin féllu á sínum tíma. „Nýja tæknin frá Össuri gerir okkur kleift að koma hermönnum, og öðrum sem örkumlast hafa, á fætur á nýjan leik og með þjálfuninni og þessari nýju þekkingu sem við höfum öðlast förum við heim til Úkraínu þar sem við munum setja saman okkar eigin gervifætur og þar með vera í stakk búin til að hjálpa enn fleirum,“ segir Stetsenko.

Mikilvægast af öllu segir hann að þjálfa sem flesta stoðtækjafræðinga í Úkraínu í notkun nýs búnaðar og það sé einmitt eitt þeirra fjölmörgu verkefna sem bíði hans er hann snýr til baka til heimalandsins. „Nú vonast ég allra helst til þess að hægt verði að ganga til samninga við Össur um frekari kaup á búnaði svo við getum komið til móts við sem allra flesta sem á því þurfa að halda,“ segir Oleksandr Stetsenko að skilnaði.

Stetsenko, Yaskiv og Nahornyi njóta leiðsagnar Antons.
Stetsenko, Yaskiv og Nahornyi njóta leiðsagnar Antons. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert