Franska orkufyrirtækið Engie greindi frá því í morgun að rússneski orkurisinn Gazprom hafi ákveðið að draga úr afhendingu á gasi „vegna ósamkomulags á milli beggja aðila um framkvæmd samninga“.
Engie sagði í yfirlýsingu að rússneskir gasbirgjar hafi þegar dregið mjög úr afhendingu gass eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar.
„Engie hefur nú þegar tryggt nauðsynlegt magn til að tryggja birgðir fyrir viðskiptavini sína og fyrir eigin þarfir,“ sagði í yfirlýsingunni.
Rússneskt gas nam fjórum prósentum af öllum orkubirgðum franska fyrirtækisins í lok júní.
Ríkisstjórn Frakklands hefur lýst yfir áhyggjum síðustu daga af mögulegum erfiðleikum í vetur vegna orkuskorts og mikillar verðbólgu.
Mörg Evrópuríki standa frammi fyrir miklum vandamálum vegna hugsanlegs orkuskorts eftir að Rússar hafa skrúfað fyrir gas til að bregðast við diplómatískum- og hernaðarlegum stuðningi Evrópusambandsins við Úkraínu.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti ætlar að hitta ráðherra landsins á sérstökum ríkisstjórnarfundi á föstudag til „undirbúnings fyrir alla möguleika í haust og í vetur“, sagði skrifstofa hans.
Forsætisráðherra Frakklands, Elisabeth Borne, hvatti yfirmenn fyrirtækja í gær til að draga úr neyslu og varaði hún jafnframt við hættunni á orkuskömmtun í landinu.