„Í guðanna bænum, hjálpið okkur“

„Okkar himnaríki er horfið og við neyðumst til að lifa við ömurlegar aðstæður,“ segir hinn sextugi Malang Jan um ástandið í Pakistan. Um þriðjungur landsins er nú undir vatni í kjölfar gríðarlegrar úrkomu á monsúntímabilinu og hafa um 1.100 látið lífið. Unnið er að því að efla aðgerðir til að koma íbúum til aðstoðar.

Það byrjaði að rigna fyrir alvöru í Pakistan í júní og afleiðingarnar eru verstu flóð í landinu í áratugi. Uppskerur hafa farið undir vatn og milljónir heimila hafa skemmst eða gjöreyðilagst í vatnavöxtunum. 

Um þriðjungur landsins er nú sagður vera undir vatni.
Um þriðjungur landsins er nú sagður vera undir vatni. AFP

Pakistönsk yfirvöld og góðgerðarsamtök vinna nú hörðum höndum að því að koma hjálpargögnum til um 33 milljóna íbúa. Verkefnið er ærið því víða hafa vegir og brýr skolast í burtu í kröftugum flóðum. 

„Hjálpið okkur“

Heimilislaust fólk sést víða í leit af skjóli, mat og hreinu drykkjarvatni. 

„Í guðanna bænum, hjálpið okkur,“ segir hinn 35 ára gamli Qadir. Hann hefst nú við ásamt fjölskyldu sinni við veg í borginni Sukkur í suðurhluta landsins. 

„Við gengum eftir veginum í þrjá daga til að komast hingað. Það er ekkert eftir heima, okkur tókst aðeins að bjarga lífum okkar.“

Milljónir íbúa hafa neyðst til að flýja heimili sín og …
Milljónir íbúa hafa neyðst til að flýja heimili sín og í mörgum tilfellum hafa heimili landsmanna skolast í burtu í ofsafengnum flóðum. AFP

Í suður- og vesturhluta landsins hafa fjölmargir Pakistanar safnast saman og gengið eftir upphækkuðum hraðbrautum og lestarteinum til að komast í burtu. 

„Við höfum ekki einu sinni pláss til að elda mat. Við þurfum aðstoð,“ segir unglingsstúlkan Rimsha Bibi í Dera Ghazi Khan, sem erí miðhluta Pakistan. 

Yfirþyrmandi að verða vitni að þessari eyðileggingu

Mikil úrkoma, sem oft veldur eyðileggingu, fylgir hinu árlega monsúntímabili í landinu, sem skiptir sköpum fyrir landbúnað og vatnsbirgðir. Annað eins úrhelli hefur þó ekki sést í þrjá áratugi. 

Yfirvöld í Pakistan segja að ástandið megi rekja til loftlagsbreytinga með tilheyrangi öfgum í veðurfari um allan heim. 

„Það er yfirþyrmandi að verða vitni að svona eyðileggingu á jörðu niðri,“ segir Sherry Rheman, sem er ráðherra loftlagsmála í Pakistan. 

Kostar 1.400 milljarða að gera við og endurbyggja innviði

„Þegar við sendum vatnsdælur á vettvang erum við spurð: „Hvert eigum við að dæla vatninu?“ Þetta er eitt stórt hafsvæði, hvergi þurr jörð til að dæla vatninu á.“

AFP

Hún segir að bókstaflega þriðjungur landsins liggi nú undir vatni. Ástandið minni einna helst á hamfarabíómynd. 

Ahsan Iqbal, ráðherra skipulagsmála, segir að Pakistan þurfi ríflega 10 milljarða dali (um 1.400 milljarða kr.) til viðgerða og til að endurbyggja innviði sem hafa eyðilagst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert