Gert er ráð fyrir að kennsla í skólum í Úkraínu fari að mestu leyti fram í neðanjarðarbyrgjum. Skólarnir eiga að hefjast á fimmtudag, 1. september.
Fimm metrum fyrir neðan kennslustofu í skóla í Kænugarði leggur skólastjórinn Mykhaylo Aliokhin lokahönd á nýja stofu í neðanjarðarbyrgi þar sem nemendur hans munu eyða miklum tíma skólaársins.
Skólinn sjálfur er enn fullur af skólatöskum sem hafa verið yfirgefnar síðan 23. febrúar, daginn áður en hersveitir Rússa réðust inn í landið.
„Um leið og loftvarnarflauta fer af stað fer starfsfólk með börnin niður. Þau munu halda áfram að læra á eins afslappaðan hátt og hægt verður,“ segir Aliokhin.
Í neðanjarðarbyrginu verður nægur matur og vatn í 48 klukkustundir og verða heilbrigðisstarfsfólk og sálfræðingar ávallt til taks.
„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér þetta, en hér erum við í þessum nýja veruleika.“
Þrátt fyrir erfiðar aðstæður vonast Aliokhin til að þriðjungur af 460 nemendum skólans, á aldrinum sex til sextán ára, mæti í skólann á fimmtudag, í fyrsta sinn eftir að stríðið hófst.
Um 4,2 milljónir úkraínskra barna eru á skólaaldri, samkvæmt tölum frá árinu 2021. Frá því að stríðið hófst hafa yfir tvær milljónir barna flúið landið.