Mik­haíl Gor­batsjov er látinn

Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov á leiðtogafundi í Höfða árið …
Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov á leiðtogafundi í Höfða árið 1986. mbl.is/RAX

Mik­haíl Gor­batsjov, fyrr­um leiðtogi Sov­ét­ríkj­anna, lést í kvöld 91 árs að aldri. Samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsi í Moskvu hafði hann verið að berjast við langvarandi og alvarleg veikindi.

Frá þessu greina rússneskar fréttaveitur. 

Gorbatsjov fæddist þann 2. mars árið 1931 í þorpinu Prívolnoje í suðvesturhluta Rússlands. Fjölskylda hans var hálf rússnesk og hálf úkraínsk.

Síðasti leiðtogi Sovétríkjanna

Hann gekk til liðs við ungliðahreyfingu kommúnistaflokksins 15 ára að aldri og árið 1952 gekk hann síðan til liðs við kommúnistaflokkinn og hóf nám í lögfræði við Háskólann í Moskvu. Hann útskrifaðist þaðan árið 1955.

Eftir að hafa unnið sig upp innan flokksins var Grobatsjov valinn til að gegna embætti aðalritara Kommúnistaflokks Sovétríkjanna árið 1985, var hann þar með orðinn leiðtogi Sovétríkjanna.

Fimm árum síðar, árið 1990, varð hann forseti Sovétríkjanna og gegndi hann því embætti til ársins 1991 þegar Kalda stríðinu lauk með falli Sovétríkjanna. 

Fundurinn í Höfða

Árið 1986 kom Gorbatsjov til Íslands og fundaði með Bandaríkjaforsetanum Ronald Reagan í Höfða til að ræða afvopnunarmál vegna Kalda stríðsins.

Leiðtoga­fund­ur­inn beindi á sín­um tíma at­hygli um­heims­ins að Íslandi með hætti sem aldrei hafði gerst áður, Ísland var í sviðsljósi alþjóðlegr­ar fjöl­miðlun­ar dög­um sam­an.

Árið 1990 fékk Gorbatsjov friðarverðlaun Nóbels fyrir hlut sinn í að bæta úr alþjóðlegum samskiptum milli austurs og vesturs. Var hann talinn hafa komið á ákveðinni sátt milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna með friðarviðræðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka