Sakaður um einelti og niðrandi ummæli

AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur fengið Zsuzönnu Jakab, aðstoðarframkvæmdastjóra WHO, til að taka tímabundið við af Takeshi Kasi, sem hefur verið sviðstjóri samtakanna á Vestur-Kyrrahafssvæðinu, með aðsetur í Manila á Filippseyjum. Starfsmenn hafa sakað Kasi um kynþáttahatur, niðrandi ummæli og einræðistilburði. 

Um tímabundna ráðstöfun er að ræða á meðan málið er til meðferðar. 

Takeshi Kasi.
Takeshi Kasi. Ljósmynd/WHO

Frá því í janúar hafa fjölmargar ásakanir á hendur Kasi, sem er japanskur læknir, litið dagsins ljós, bæði frá fyrrverandi og núverandi starfsfólki WHO. Kasi neitar alfarið sök. 

Hann er m.a. sakaður um að hafa skapað eitrað andrúmsloft í höfuðstöðvum WHO á Vestur-Kyrrahafssvæðinu með því að leggja fólk kerfisbundið í einelti og smána það opinberlega. 

Starfsfólkið sem um ræðir hefur óskað eftir því að fá að koma ekki fram undir nafni þar sem það óttast hörð viðbrögð af hálfu Kasi. Hann er einnig sakaður um að hafa talað með niðrandi hætti um starfsmenn af vissum þjóðernum, þá sérstaklega um starfsfólk sem er frá Filippseyjum. 

WHO greindi frá því í yfirlýsingu í dag að Kasi sé nú kominn í leyfi frá störfum. 

Starfsemi WHO á Vestur-Kyrrahafssvæðinu er umfangsmikið, en það nær yfir 37 landsvæði þar sem íbúarnir eru tæpir tveir milljarðar. 

Kasai hefur gegnt þessu embætti frá árinu 2019, en hann var útnefndur af framkvæmdastjórn WHO. Hann hafði áður verið aðstoðarframkvæmdastjóri skrifstofunnar og hefur starfað hjá WHO í 15 ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert