500 þúsund ára gömul tönn fannst í Ísrael

Fornleifafræðingar og líffræðingar við uppgröft nálægt Revdim í suðurhluta Ísrael.
Fornleifafræðingar og líffræðingar við uppgröft nálægt Revdim í suðurhluta Ísrael. AFP/Menahem Kahana

Ísraelskir fornleifafræðingar sýndu í dag sjaldgæfa vígtönn úr risavöxnum útdauðum fíl. Tönnin er um fimm hundruð þúsund ára gömul og að mati sérfræðinga varpar fundurinn ljósi á einhvers konar félagslega athöfn sem iðkuð var af forsögulegu mannfólki

Gripurinn er 2,6 metrar á hæð og vegur 150 kíló. Það voru líffræðingar við Eitan Mor sem uppgötvuðu tönnina við fornleifauppgröft nálægt Revadim, þorpi í suðurhluta Ísrael.

Vígtönnin er sú stærsta sem fundist hefur á svæðinu samkvæmt fornleifayfirvöldum í Ísrael. 

Dó út fyrir fjögur hundruð þúsund árum síðan

Avi Levy, sem stýrði uppgreftinum, sagði það frábært að finna vel varðveitta vígtönn en fíllinn er af svokallaðri beintanna fílaætt (e. straight-tusked elephant), sem dó út fyrir fjögur hundruð þúsund árum síðan.

„Nálægt tönninni voru verkfæri forsögulegra manna sem veiddu og húðflettu dýrin á svæðinu, og augsýnilega þessa fíla líka,“ segir Levy.

Hverjir þessir menn voru sem bjuggu á þessu svæði, þá á landbrú frá Afríku til Asíu og Evrópu, er „hulin ráðgáta“ að mati Levy en engar mannaleifar hafa fundist, aðeins verkfæri þeirra og tól.

Táknræn veiði

Miðað við stærð tannarinnar hefur fíllinn verið um fimm metrar á hæð, en það er mun hærra en nútíma fílar í Afríku.

Ljóst er að ómögulegt hefur verið fyrir menn að flytja tennurnar með sér á milli staða en það mikla magn kjöts sem hægt væri að nýta úr slíku dýri gefur vísbendingu um að veiðin á þessum fílum hefur þjónað félagslegum tilgangi, en þetta segir Israel Hershkovitz, mannfræðingur með sérhæfingu í líffræði við Háskólann í Tel Avív.

„Hópar veiðimanna og safnara hafa hist á ákveðnum stöðum á ákveðnum tímum til að skiptast á upplýsingum og konum til að bindast enn traustari félagslegum böndum sem höfðu þá veikst um tíma, og lagt svo af stað við að veiða fíl, sem er táknrænt,“ segir Hershkovitz.

„Þeir gætu hafa þróað með sér einhvers konar helgiathöfn í tengingu við þessar tennur en síðar þurft að flytja, fjölskyldurnar hafa þurft að ráfa um í leit að nýjum íverustað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert