Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur fordæmt flokksmenn Repúblikanaflokksins fyrir að ráðast á trúverðugleika bandaríku alríkislögreglunnar, FBI.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur áður gagnrýnt repúblikana vegna þessa.
Biden hefur einnig fordæmt þann fjölda hótana sem FBI hefur borist í kjölfar húsleitar sem stofnunin lét framkvæma á Mar-a-Lago-setri Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í Palm Beach í Flórída.
Í ávarpi sínu til stuðningsmanna sinna í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum sagði hann að framangreindar árásir væru ógeðfelldar. Þá sagðist hann jafnframt vera staðráðinn í að banna sjálfvirka riffla í landinu.
Greint var frá því í morgun að skjöl á heimili Trump í Flórída voru „líklega falin“ til að hindra rannsókn FBI á mögulegri slæmri meðhöndlun hans á leynilegu efni, að sögn bandaríska dómsmálaráðuneytisins.
Áður en alríkislögreglan gerði húsleit á heimilinu fann hún „mörg sönnunargögn“ sem sýndu að „leynileg skjöl“ voru í Mar-a-Lago. Þetta kemur fram í dómskjali sem var lagt fram í gær.