„Breytti gangi sögunnar“

Gorbatsjov árið 2009.
Gorbatsjov árið 2009. AFP/David Gannon

Fjölmargir leiðtogar hafa minnst Mikhaíls Gorbatsjov, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, sem lést í gær 91 árs gamall.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að „enn er horft til sýnar [Gorbatsjov] um betri heim“.

„Sögulegar umbætur Gorbatsjov leiddu til þess að Sovétríkin sundruðust, hjálpuðu til við endalok kalda stríðsins og opnuðu á möguleikann á samvinnu á milli Rússlands og NATO,“ sagði Stoltenberg.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hrósaði leiðtoganum sáluga fyrir hans hlutverk í að sameina Þýskaland. Hann sagði aftur á móti að tilraunir hans til að skapa varanlegt lýðæði í Rússlandi hafi mistekist.

„Lýðræðishreyfingar í Mið- og Austur-Evrópu högnuðust af því að hann hafi verið við völd,“ sagði Scholz en bætti við að Gorbatsjov „lést á sama tíma og lýðveldi hefur misheppnast í Rússlandi“.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði að Gorbatsjov hafi haft „gríðarmikil áhrif“ á veraldarsöguna. „Mikhaíl Gorbastjov var stjórnmálamaður og embættismaður sem hafði gríðarmikil áhrif á gang veraldarsögunnar,“ sagði Pútín í yfirlýsingu og bætti við að hann hafi leitt Sovétríkin „á tímum þegar áttu sér stað flóknar og dramatískar breytingar“.

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hafði þetta að segja: „Einstakur embættismaður sem breytti gangi sögunnar,“ sagði hann og bætti við að Gorbatsjov hafi „gert meira en nokkur annar einstaklingur til að tryggja friðsamleg endalok kalda stríðsins“.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði Gorbatsjov hafa verið „traustan og virtan leiðtoga“ sem „greiddi leiðina fyrir frjálsri Evrópu“.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagðist „ávallt hafa dáðst að því hugrekki og heilindum“ sem Gorbatsjov sýndi við að ljúka kalda stríðinu á friðsamlegan hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka