Starfsmenn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar eru lagðir af stað frá Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, til að sinna eftirliti í kjarnorkuverinu Saporisjía í suðurhluta landsins.
Kjarnorkuverið, sem er það stærsta í Evrópu, hefur lent í víglínu á milli rússneskra og úkraínskra hersveita.
„Loksins erum við komin á ferðina,“ sagði Rafael Grossi, yfirmaður stofnunarinnar. Hann kom til Kænugarðs á mánudag ásamt þrettán manna eftirlitsteymi.
Grossi sagði að teymið muni eyða „nokkrum dögum“ í kjarnorkuverinu og senda síðan frá sér skýrslu.
Saporisjía hefur verið undir stjórn Rússa síðan í mars síðastliðnum. Úkraínumenn hafa sakað Rússa um að gera út mörg hundruð hermenn þaðan og geyma þar skotvopn.