Jarðarför Mikhaíl Gorbatsjovs, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, verður haldin í Moskvu, höfuðborg Rússlands, á laugardaginn. Rússneskir fjölmiðlar greina frá þessu.
Athöfn fer fram í Súlnasalnum í Moskvu áður en Gorbatsjov verður lagður til hinstu hvílu í Nóvódevítsji kirkjugarðinum. Heimildir herma að hann verði jarðaður við hlið eiginkonu sinnar heitinnar, Raisu Gorbatsjov.
Samkvæmt fjölmiðlafulltrúa Gorbatsjovs-sjóðsins mun athöfnin fara fram milli klukkan tíu og tvö að staðartíma og verður hún opin öllum.
Fjölmargir leiðtogar hafa minnst Gorbatsjov í dag en fyrrum leiðtoginn lést í gær 91 árs að aldri eftir langa baráttu við veikindi.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði m.a. að enn væri horft til sovéska leiðtogans og að sögulegar umbætur hans hefðu leitt til endaloka Kalda stríðsins.
Þá hrósaði Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, leiðtoganum sáluga fyrir hans hlutverk í að sameina Þýskaland.