Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna sem lést í gær 91 árs að aldri, hafi verið „leiðtogi af sjaldgæfum toga“ sem gerði heiminn að öruggari stað.
„Þetta voru gjörðir leiðtoga af sjaldgæfum toga. Leiðtoga sem gat séð fyrir sér að öðruvísi framtíð var möguleg og hafði hugrekki til að leggja allan feril sinn undir til að ná því markmiði,“ sagði Biden í yfirlýsingu og átti þar við lýðræðislegar endurbætur Gorbatsjov.
„Niðurstaðan var öruggari heimur og aukið frelsi fyrir milljónir manna.“
Hann bætti við að Gorbatsjov hafi verið „maður með einstaka sýn“.
Tilkynnt var um andlát leiðtogans fyrrverandi í gær. Lést hann á sjúkrahúsi í Moskvu eftir „alvarleg og langvarandi veikindi“.
Gorbatsjov var við völd á árunum 1985 til 1991 og átti þátt í að lagfæra samskipti Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.
Fleiri kunnir Bandaríkjamenn minntust Gorbatsjov, þar á meðal fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, James Baker III, sem átti í samningaviðræðum við hann á lokaárum kalda stríðsins. „Hann gegndi mikilvægu hlutverki í friðsamlegri úrlausn kalda stríðsins með því að kjósa að beita ekki aflsmunum til að halda veldinu saman...Frjálsi heimurinn saknar hans gríðarlega“.
Í yfirlýsingu á Twitter lýsti Reagan-stofnunin Gorbatsjev sem „manni sem eitt sinn var pólitískur andstæðingur Ronalds Reagan [fyrrverandi Bandaríkjaforseta] sem endaði á því að vera vinur hans.“