Pistorius freistar þess að fá reynslulausn

Oscar Pistorius var dæmdur fyrir að myrða kærustuna sína.
Oscar Pistorius var dæmdur fyrir að myrða kærustuna sína. AFP

Suður-afríski spretthlauparinn, Oscar Pistorius,  hlaut 13 ára fangelsisdóm fyrir að myrða unnustu sína árið 2013. Hann lætur nú reyna á það fyrir dómstólum hvort hann eigi rétt á því að skilorðsnefnd taki mál hans upp og meti hvort hann fái reynslulausn, samkvæmt frétt BBC. Pistorius reyndi síðast að fá reynslulausn á síðasta ári.

Pistorius, sem var ólympíumeistari fatlaðra í spretthlaupi, skaut kærustuna sína, Reevu Steenkamp, til bana að morgni Valentínusardags árið 2013. Hann skaut hana fjórum skotum í gegnum baðherbergishurð en hélt því fram að hann hefði haldið að hún væri innbrotsþjófur.

Pistorius vill meina að hann hafi afplánað helming dómsins fyrir morðið og eigi því rétt á reynslulausn. Ruglings virðist gæta um það hvenær afplánunin taldist hefjast, en nokkrir dómar og úrskurðir hafa fallið í tengslum við málið.

Hann var upphaflega dæmdur í sex ára fangelsi fyrir manndráp árið 2014 en árið 2017 var dómurinn þyngdur og honum gert að afplána 13 ár og fimm ár fyrir morð.

Í fyrra var úrskurðað að upphaf afplánunar skyldi miðast við upphaflega dóminn, en þær upplýsingar virðast ekki hafa skilað sér réttan stað og því er beðið nýs úrskurðar.

Pistorius fer fram á að hann fái áheyrn skilorðsnefndar. Verði það samþykkt æskir hann þess að áheyrnin fari fram innan 30 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert