Ráðherra segir af sér vegna dauða ófrískrar konu

Konunni var vísað frá yfirfullri fæðingardeild.
Konunni var vísað frá yfirfullri fæðingardeild. Ljósmynd/Pexels

Marta Temido, heilbrigðisráðherra Portúgals, hefur sagt af sér embætti í kjölfar þess að ófrísk kona lést eftir að hafa verið vísað frá yfirfullri fæðingardeild.

Illa hefur gengið að manna fæðingardeildir í landinu vegna skorts á starfsfólki.

Konan, sem var 34 ára ferðamaður í landinu, fór í hjartastopp þegar hún var flutt á milli sjúkrahúsa eftir að hafa verið neitað um innlögn á fæðingardeild.

Marta Temido.
Marta Temido. Ljósmynd/Wikipedia.org

Barnið komst lífs af eftir bráðakeisaraskurð og er við góða heilsu. Rannsókn á dauða móðurinnar er hafin, að því er BBC greinir frá.

Mælirinn fullur

Forsætisráðherra Portúgals, Antóníó Costa, sagði í gær að andlátið hefði verið kornið sem fyllti mælinn sem leiddi til afsagnar Temido. Hún hafði gegnt embættinu frá 2018.

Stjórnvöld í landinu hafa verið harðlega gagnrýnd vegna meðhöndlunar á vandanum á fæðingardeildum. Hefur sumum þeirra verið lokað tímabundið og barnshafandi konur þurft að gangast undir áhættusaman flutning á milli sjúkrahúsa.

Hefur það meðal annars leitt til dauða tveggja ungbarna þar sem mæðurnar höfðu greinilega verið fluttar á milli sjúkrahúsa og þurft að þola miklar tafir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert