Trump hafi falið og fært leynileg gögn

Trump krefst þess að sjálfstæður skoðunaraðili verði tilnefndur.
Trump krefst þess að sjálfstæður skoðunaraðili verði tilnefndur. AFP/Ronda Churchill

Leynileg gögn sem fundust á heimili Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í Flórída eru talin hafa verið falin eða færð til í þeim tilgangi að hindra rannsókn hins opinbera á málinu. Þetta kom fram í gögnum sem bandaríska dómsmálaráðuneytið lagði fram fyrir dómi. AFP-fréttstofan greinir frá.

Trump hafði ítrekað verið krafinn um að skila opinberum gögnum sem hann var talinn hafa undir höndum en þegar hann varð ekki við því var tekin ákvörðum um að fá húsleitarheimild. Húsleit var framkvæmd þann 8. ágúst og fundu starfsmenn FBI tugi kassa af gögnum sem innihéldu yfir hundrað leynileg skjöl.

Hluti þeirra gagna sem FBI lagði hald á í húsleitinni.
Hluti þeirra gagna sem FBI lagði hald á í húsleitinni. AFP

Get skaðað hagsmuni þjóðarinnar

Trump hefur höfðað mál gegn dómsmálaráðuneytinu vegna húsleitarinnar og krefst þess að sjálfstæður aðili verði tilnefndur til að fara yfir skjölin. Hann myndi þá ekki starfa undir stjórn ráðuneytisins heldur myndi hann meta skjölin og ákveða hverjum þeirra Trump gæti haldið eftir vegna forréttinda hans eða vegna sérstakrar verndar frá rannsóknum.

Verði sjálfstæður skoðunaraðili tilnefndur gæti það komið í veg fyrir að rannsakendur fái aðgang að skjölunum, sérstaklega ef viðkomandi mun fallast á kröfur Trump um forréttindi.

Ráðuneytið segir enga þörf á því að tilnefna sjálfstæðan aðila til að meta gögnin, enda hafi slíkt mat þegar farið fram innan ráðuneytisins. Það liggi fyrir að gögnin tilheyri ekki Trump. Hins vegar geti slík tilnefning skaðað hagsmuni þjóðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert