Vopnaburður takmarkaður verulega í New York

Eric Adams borgarstjóri New York.
Eric Adams borgarstjóri New York. AFP/Ed Jones

Á morgun taka gildi lög sem banna fólki að bera skotvopn á opinberum stöðum í New York-ríki  í Bandaríkjunum. Verður skotvopnaburður þá m.a. ekki heimilaður á börum, bókasöfnum, í skólum, ríkisbyggingum eða á sjúkrahúsum, svo eitthvað sé nefnt. Takmarkanirnar munu þó ekki ná til lögregluþjóna.

Löggjafarþing ríkisins samþykkti lögin fyrr á árinu í kjölfar þess að hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að það væri réttur bandarískra ríkisborgara að yfirgefa heimili sín vopnaðir. Með úrskurðinum voru felld úr gildi lög frá árinu 1913 sem takmörkuðu vopnaburð í New York.

Eric Adams, borgarstjóri New York, sagði ákvörðun hæstaréttar vega að öryggi borgarbúa. Á morgun muni hins vegar nýjar takmarkanir um skotvopn taka gildi, sem ættu við um vopnaburð á viðkvæmum svæðum á borð við Times Square. 

Borgarstjórinn afhjúpaði í dag skilti sem hengt verður upp á morgun á torginu sem á stendur „Times Square: Byssu laust svæði.“

Skiltið afhjúpað.
Skiltið afhjúpað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert