Lögreglumaður í Texas í Bandaríkjunum þurfti að kalla á aðstoð þegar að fjögurra ára gamalt barn tók með sér hlaðna skammbyssu í skólann.
Lögreglumaðurinn lagði hald á byssuna en eigandi vopnsins reyndist vera faðir barnsins. Var hann handtekinn og ákærður fyrir að hafa gert skotvopnið aðgengilegt barninu og fyrir að stofna lífi barns í hættu.
Svipað atvik átti sér stað fyrir tveimur dögum í Arizona en þá var barnið sem kom við sögu sjö ára að aldri. Var skotvopnið þá óhlaðið. Eftir að föður barnsins hafði verið gert viðvart um atvikið fór hann heim og sá að búið var að taka tvö skotvopn. Hafði barnið þá tekið tvær byssur og falið aðra á skrifstofu í skólanum.
Í yfirlýsingu frá sýslumannsembætti bæjarins kom fram að foreldrarnir töldu að byssurnar hefðu verið geymdar á öruggum stað. Barnið virðist þó hafa fundið leið til þess að taka skotvopnin.