Ráðherra lýsir yfir stríði gegn diskettunni

Það þarf ansi margar diskettur til að geyma gögn sem …
Það þarf ansi margar diskettur til að geyma gögn sem komast fyrir á einum minnislykli. Ljósmynd/Colourbox

Ráðherra stafrænna mála í Japan hefur lýst yfir „stríði“ gegn diskettunni (e.floppy disk) og annarri gamaldags og úreldri tækni sem enn er notuð víða af starfsfólki stjórnsýslunnar.

Á um 1.900 skrifstofum hins opinbera er enn gerð krafa um að fyrirtæki geymi gögn og skili inn umsóknum á diskettum. En það þarf líklega um 20.000 slíkar diskettur til að geyma gögn sem kæmust fyrir á 32GB minnislykli.

Taro Kano, ráðherra stafrænna mála í Japan, sagði á blaðamannafundi í dag að reglugerðum yrði breytt þannig fólki yrði heimilt að notfæra sér internetið í þessum tilgangi, samkvæmt frétt BBC.

Hann gagnrýndi þá áráttu landa sinna að vilja halda í gamla og úrelda tækni. „Ég er að reyna að losa mig við faxtækið mitt, og stefni enn á að gera það.“ Svo sneri hans sér að úreldum geymsluaðferðum gagna. „Hvar er eiginlega hægt að kaupa diskettur nú til dags?“ spurði ráðherrann.

Ráðherra netöryggismála aldrei notað tölvu 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Japanir komast í fréttirnar fyrir svipaðar sakir, sem kemur eflaust mörgum á óvart þar sem ýmsar spennandi tækninýungar eru einmitt þróaðar og framleiddar í Japan.

Það vakti til mynda töluverða athygli þegar ráðherra netöryggismála landsins viðurkenndi það árið 2018 að hann hefði aldrei notað tölvu. Hann hefði alltaf falið starfsfólki sínu þau verkefni sem kröfðust tölvunotkunar.

Ýmsar skýringar hafa verið gefnar á tilhneigingu fólks til að halda í gamlar aðferðir. Til að mynda að stafrænt læsi almennings sé ekki gott og að menningin innan stjórnsýslunnar sé mjög íhaldsöm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert