Dómstóll herforingjastjórnarinnar í Mjanmar hefur dæmt fyrrverandi leiðtogann og nóbelsverðlaunahafann Aung San Suu Kyi í þriggja ára fangelsi fyrir kosningasvindl en flokkur hennar, Lýðræðisflokkurinn, bar sigur úr býtum í kosningum landsins árið 2020.
Suu Kyi var dæmd í þriggja ára fangelsi og erfiðisvinnu að sögn heimildarmanns sem bætti við að Suu Kyi sem er 77 ára gömul virðist við góða heilsu.
Suu Kyi hefur verið í haldi hersins frá því að valdarán var framið í febrúar í fyrra og ríkisstjórninni steypt af stóli. Hún hefur þegar verið dæmd í 17 ára fangelsi, meðal annars fyrir spillingu.
Alþjóðlegir eftirlitsmenn segja kosningarnar árið 2020 hafa að mestu verið frjálsar og sanngjarnar en herinn segist uppvís um ellefu milljónir kosningasvindla.
Min Aung Hlaing, yfirmaður herforingjastjórnarinnar í Mjanmar, sagði nýjar kosningar ekki geta farið fram fyrr en landið væri „friðsælt og stöðugt“.
Fleiri en 2.200 hafa verið drepnir og yfir 15.00 handteknir í aðgerðum hersins gegn andófi síðan valdaránið átti sér stað að sögn eftirlitshóps í landinu.