Í þriggja ára fangelsi fyrir kosningasvindl

Aung San Suu Kyi.
Aung San Suu Kyi. AFP

Dómstóll herforingjastjórnarinnar í Mjanmar hefur dæmt fyrrverandi leiðtogann og nóbelsverðlaunahafann Aung San Suu Kyi í þriggja ára fangelsi fyrir kosningasvindl en flokkur hennar, Lýðræðisflokkurinn, bar sigur úr býtum í kosningum landsins árið 2020.

Suu Kyi var dæmd í þriggja ára fangelsi og erfiðisvinnu að sögn heimildarmanns sem bætti við að Suu Kyi sem er 77 ára gömul virðist við góða heilsu.

Suu Kyi hefur verið í haldi hersins frá því að valdarán var framið í febrúar í fyrra og ríkisstjórninni steypt af stóli. Hún hefur þegar verið dæmd í 17 ára fangelsi, meðal annars fyrir spillingu.

Frá mótmælum í febrúar 2021.
Frá mótmælum í febrúar 2021. AFP

Alþjóðlegir eftirlitsmenn segja kosningarnar árið 2020 hafa að mestu verið frjálsar og sanngjarnar en herinn segist uppvís um ellefu milljónir kosningasvindla.

Min Aung Hlaing, yfirmaður herforingjastjórnarinnar í Mjanmar, sagði nýjar kosningar ekki geta farið fram fyrr en landið væri „friðsælt og stöðugt“.

Fleiri en 2.200 hafa verið drepnir og yfir 15.00 handteknir í aðgerðum hersins gegn andófi síðan valdaránið átti sér stað að sögn eftirlitshóps í landinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert