Útlit er fyrir enn meiri orkukreppu í Evrópu en Rússar hafa stöðvað gassölu til Þýskalands tímabundið, að sögn vegna tæknilegra vandamála.
Rússneska stórfyrirtækið Gazprom sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kom að leiðsla sem skiptir miklu máli fyrir gasflutninginn þurfi á viðgerð að halda.
Í hefðbundnu viðhaldi hafi komið í ljós leki í túrbínu samkvæmt tilkynningunni. Á meðan unnið sé að viðgerð sé lokað fyrir afhendingu jarðgass.
Reynt verður að afhenda gas með leiðslu sem liggur frá St. Pétursborg til Þýskalands frá og með morgundeginum.
Stjórnvöld í Kreml segja aðra túrbínu frá Siemens hafa verið í viðgerð í Kanada en að viðskiptaþvinganir á Rússa hafi komið í veg fyrir að hún skilaði sér til baka. Viðskiptaþvinganir bitni því á Þjóðverjum og fleirum í því ljósi en stjórnvöld í Berlín hafa á hinn bóginn sagt að Rússar noti orkumálin sem pólitískt vopn.