Milljónir íbúa eru fastar heima í Chengdu-borg í Kína í dag vegna mikils fjölda nýrra kórónuveirusmita.
Hillur stórmarkaða voru tæmdar í vikunni er borgarbúar í Chengdu, sem telja um 21 milljón manns, óttuðust að mánaðarlöng útgöngubönn sem giltu í stórborginni Shanghai fyrr á árinu endurtækju sig.
Langar biðraðir mynduðust er fólki var gert skylt að fara í Covid-próf, en myndefni frá fréttastofu AFP sýnir að hillur í stórmörkuðum voru mestmegnis tómar.
Frá og með sunnudeginum leyfist hverju og einu heimili að senda eina manneskju á dag út í búð til að kaupa nauðsynjavörur, svo framarlega sem viðkomandi hefur ekki greinst með Covid-19 á undanförnum sólarhring.
Þá segir að öllum íbúum verði gert skylt að taka Covid-próf og fólk er hvatt til þess að yfirgefa ekki borgina nema „brýn nauðsyn beri til“.
Að sögn borgaryfirvalda hafa 150 manns greinst með Covid-19 í dag en þar á meðal eru 47 einkennalausir.