Norðmenn hyggjast framlengja kolavinnslu sína í Námu 7 svokallaðri á Svalbarða en áður hafði verið ákveðið að loka henni endanlega haustið 2023 eftir rúmlega hálfrar aldar kolavinnslu þar. Kemur þetta til af snarhækkandi kolaverði um alla Evrópu vegna stríðsins í Úkraínu.
„Vegna markaðsástandsins í Evrópu höfum við ákveðið að vinna áfram úr námunni fram á sumarið 2025,“ segir Jan Morten Ertsaas, forstjóri Store Norske Spitsbergen Kulkompani sem annast námugröft á Svalbarða. „Það þýðir að við fáum nýtt það sem eftir er í námunni og einnig að við getum haft starfsfólkið okkar í vinnu tveimur árum lengur.“
Náma 7, sem er skammt frá Longyearbyen á Svalbarða, er síðasta kolanáman á norsku yfirráðasvæði. Megintilgangur hennar hefur fram til þessa verið að útvega orkuveri eyjarinnar 30.000 tonn af kolum ár hvert en auk þess hefur útflutningur til annarra svæða í Evrópu verið nokkur, einkum til þýsku efnaverksmiðjunnar Clariant sem nýtir kolin í framleiðslu fyrir þýska stáliðnaðinn.
Vegna þess hve kol hafa hækkað í verði í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu reiknar Store Norske með að framhaldsvinnslan til 2025 muni standa undir sér. Þar með verða síðustu nothæfu kolin færð upp á yfirborð jarðar en það sem eftir liggur í námunni að tveimur árum liðnum nær ekki þeim gæðum að nýtast í iðnaði.
Jan Christian Vestre viðskiptaráðherra sagði í maí að ekki væri raunhæft að framlengja vinnsluna í Námu 7 vegna hækkandi raforkuverðs í Noregi. Nú snýst hann hins vegar á sveif með Store Norske og styður vinnslu til 2025.
„Nú er mikil þörf fyrir iðnaðarkol í Evrópu. Landfræðipólitískt [geopolitisk] ástand er í mikill óvissu og Noregur verður að taka á sig hluta af ábyrgðinni á því að útvega lífsnauðsynleg hráefni. Við setjum þó þau skilyrði að kolin verði nýtt til iðnframleiðslu en ekki í mengandi kolaorkuver,“ segir Vestre við norska ríkisútvarpið NRK.
Tekur hann þó fram að kolavinnsla lengur en til 2025 komi ekki til greina þar sem stefnan sé að hætta kolanotkun í Evrópu. „Nú þróast tæknin hratt. Svíar eru farnir að framleiða stál án þess að nota kol, nú nota þeir vetni. Áframhaldandi námuvinnsla á Svalbarða [fram yfir árið 2025] kallar á stórar fjárfestingar sem þjóna fáum. Framtíðin snýst ekki um kol, hún snýst um endurnýtanlega orkugjafa,“ segir ráðherra enn fremur.