Ráðherra sakaður um kynferðisofbeldi

Lögreglumaður stendur fyrir utan Downing stræti 10.
Lögreglumaður stendur fyrir utan Downing stræti 10. AFP

Ráðherra í bresku ríkisstjórninni og hátt settur aðstoðarmaður í Downingstræti 10 hafa fengið að halda störfum sínum þrátt fyrir ásakanir um kynferðisbrot samkvæmt rannsókn bresku fréttastofunnar Sky News.

Tvær konur hafa stigið fram í hlaðvarpi fréttastofunnar og lýst ítarlega því kynferðisofbeldi sem þær segjast hafa orðið fyrir af hendi háttsettra stjórnmálamanna. Önnur kvennanna lýsir nauðgun en hin að káfað hafi verið á henni. 

Sky News hefur ekki nafngreint mennina tvo til að vernda fórnarlömbin.

Þorði ekki að fara lengra með málið

Önnur konan lýsir því að hún hafi verið ofurölvi og að maðurinn, sem nú er ráðherra, hafi haldið áfram að gefa henni áfengi. Eftir einhverja stund hafa hún síðan sagst ætla í háttinn.  

„En augljóslega lét hann mig ekki í friði. Og svo vaknaði ég morguninn eftir og áttaði mig á því hvað hafði gerst,“ sagði konan. 

Hún hafði síðan sagt samstarfsfélögum sínum og þingmanninum sem hún vann fyrir á þeim tíma frá. Eftir að hafa rætt við lögregluna hafi hún þó ákveðið að fara ekki lengra með málið. Hún segist hafa verið of hrædd um að það myndi stofna starfsferli hennar í hættu og eyðileggja líf hennar.

Hin konan sem Sky News ræddi við segir háttsettan starfsmann Downingstrætis hafa káfað á sér. Hún segir að þegar hún hafi frétt af stöðuhækkun hans hafi hún kvartað til skrifstofu stjórnarráðsins en að maðurinn hafi haldið starfinu.

Rannsaka hvernig er tekið á kynferðisbrotum

Ásakanirnar eru hluti af rannsókn Sky News á því hvernig er tekið á kynferðisbrotum og eineltismálum innan þinghússins.

Sumir þeirra sem var rætt við bentu á að þótt að vitað væri um ákveðna stjórnmálamenn sem best væri að halda sig fjarri væri oft ekkert aðhafst og það hefði lítil áhrif á framgang þeirra í starfi.

Margir bentu einnig á að það gæti skaðað eigin atvinnuhorfur að kvarta formlega undan stjórnmálamönnum í háttsettum stöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert