Joe Biden forseti Bandaríkjanna gagnrýndi harkalega Donald Trump, fyrrum forseta Bandaríkjanna, og „öfgafulla“ stuðningsmenn hans í ávarpi í nótt og sagði þá óvini bandarísks lýðræðis.
Forsetinn hvatti sína eigin stuðningsmenn til að streitast á móti þeim repúblikunum sem aðhyllast hugmyndafræði Trump undir nafninu: „Make America Great Again.“
„Donald Trump og MAGA repúblikanarnir tákna öfgar sem ógna grunnstoðum lýðveldisins okkar,“ sagði Biden.
„Þeir fagna reiði. Þeir þrífast á glundroða. Þeir lifa ekki í ljósi sannleikans heldur í skugga lyga,“ bætti hann við.
Forsetinn sagði ekkert pláss vera fyrir ofbeldi í bandarískum stjórnmálum og vísaði þá í árás stuðningsmanna Trump á þinghúsið í fyrra.
Trump skrifaði síðar á samfélagsmiðil sinn Truth Social að forsetinn væri óhæfur til embættis. Hann sagði að ef Biden vildi ekki gera Bandaríkin frábær aftur þá ætti hann sannarlega ekki að vera fulltrúi landsins.
Í nóvember fara fram miðkjörstímabils-kosningar í landinu (e. midterm elections). Þá mun koma í ljós hvort Demókratar muni halda meirihluta þingsins.
Ávarp Bidens má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.