Komist verður hjá því að loka hundruðum skóla víða í Skotlandi í næstu viku þar sem verkalýðsfélög hafa tekið ákvörðun um að aflýsa fyrirhuguðum verkföllum. Samningur sem kveður á um 10% launahækkun fyrir lægst launaða starfsfólkið þykir ásættanlegur og verður félagsmönnum ráðlagt að samþykkja samninginn.
Búið var að boða til verkfalls meðal skólastarfsfólks í næstu viku. Ætluðu starfsmennirnir að leggja niður störf í þrjá heila daga.
Þá höfðu starfsmenn sem annast sorphirðu einnig átt að hefja nýja lotu verkfalla í næstu viku. Þeir lögðu fyrst niður störf þann 18. ágúst í Edinborg eftir að verkalýðsfélög höfnuðu tilboði sem kvað á um 3,5% launahækkun. Þá þótti samningur upp á 5% launahækkun heldur ekki nógu góður og var honum einnig hafnað.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, og fulltrúar verkalýðsfélaganna funduðu í gær í ellefu klukkustundir í Edinborg, höfuðborg Skotlands. Fyrr í vikunni höfnuðu félögin samningi þar sem kveðið var á um launahækkanir. Ráðherrann varaði þá við að ekki væri til endalaust fjármagn til að mæta kröfum félagsmanna.
Eftir fundinn í gær samþykktu verkalýðsfélögin Unison, GMB og Unite að fresta aðgerðum á meðan að þau myndu ráðfæra sig við félagsmenn sína um nýjan samning, sem kvað á um 10% launahækkun fyrir lægst launuða starfsfólkið. Félögin munu mæla með því að hann verði samþykktur.
Talsmaður Unison taldi að nýi samningurinn myndi veita 80% félagsmönnum þeirra launahækkun sem væri á bilinu 5 til 10%. Taldi hann það vera sigur þrátt fyrir að samningurinn væri ekki „fullkominn“.