Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, mun ferðast til Moskvu, höfuðborgs Rússlands, í dag til að vera viðstaddur útför Mikhaíl Gorbatsjovs, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna.
Útförin fer fram í dag og verður athöfn haldin í Súlnasal í Húsi verkalýðsfélaga í Mosvku.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Ungverjalands mun Orban mæta ásamt sendinefnd til Rússlands til að votta virðingu sína.
Talsmaður stjórnvalda í Kreml segir að ekki hafi verið skipulagður fundur milli forsætisráðherrans og Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, á meðan heimsókn ráðherrans stendur.
Orban og Pútín eru sagðir nánir félagar en fyrir stríðið átti ungverski forsætisráðherrann eitt nánasta samband við Rússlandsforsetann af öllum leiðtogum í Evrópu. Þess má geta að Ungverjaland er eina landið sem hefur aukið gasflutning frá Rússlandi frá því að stríðið hófst.
„Eftir okkar bestu vitneskju þá mun hann einungis koma til að kveðja Gorbatsjov,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml.